Ráðningarfyrirtækin Góð ráð og Ráðum atvinnustofa hafa gert með sér samning um víðtækt samstarf á sviði ráðninga og stjórnendaleitar. Í samningnum felst að Ráðum munu flytja skrifstofur sínar úr Borgartúni yfir á Þóroddsstaði við Skógarhlíð þar sem fyrirtækin verða framvegis undir einu þaki. Ráðum mun veita Góðum ráðum faglega ráðgjöf í ráðningarverkefnum og Góð ráð munu aðstoða Ráðum við öflun kandídata í störf.

Stofnandi og eigandi bæði Góðra samskipta og Góðra ráða er Andrés Jónsson. Góð ráð er dótturfyrirtæki almannatengslafyrirtækisins Góð samskipti og hefur tekið að sér verkefni á sviði stjórnendaleitar (Executive Search) fyrir stór og meðalstór fyrirtæki. Ráðum atvinnustofa er alhliða ráðningarstofa stofnuð snemma árs 2012 af tveimur reynslumiklum sérfræðingum í mannauðsmálum, þeim Hildi Erlu Björgvinsdóttur og Nathalíu Druzin Halldórsdóttur.

Fram kemur í tilkynningu að á þeim skamma tíma sem Ráðum hefur starfað hefur það lokið við ráðningar í á annað hundrað störf fyrir tugi viðskiptavina. Hildur og Nathalía hafa báðar starfað við ráðningar um árabil, m.a. hjá IMG. Ráðum veitir einnig ráðgjöf á sviði mannauðsmála.

Góð samskipti hófu að bjóða upp á stjórnendaleit fyrir nokkrum misserum síðan en ákváðu nýverið að stofna sérstakt dótturfyrirtæki um þessa starfsemi. Engar breytingar eru fyrirhugaðar á starfsemi Góðra samskipta og mun það áfram veita skjólstæðingum sínum almannatengslaþjónustu eins og verið hefur.

Sjá nánar á vefsíðum Góðra ráða og Ráða .