Efnahagsreikningar lífeyrissjóðanna virðast heilt yfir vera traustir til skamms tíma litið, þegar borin er saman hrein eign til greiðslulífeyris og lífeyrisgreiðslur á liðnu ári. Þá er sjóðsstreymið alla jafna gott, í þeim skilningi að innstreymi fjár er margfalt meira en útstreymi og  ráðstöfunarfé eykst ár frá ári. Þó virðist tryggingafræðileg staða sjóðanna margra hverra vera áhyggjuefni sem og raunávöxtun þeirra.

Ekki er að finna eiginlegan rekstrarreikning í uppgjöri lífeyrissjóðanna heldur er þar yfirlit yfir breytingu á hreinni eign til greiðslu lífeyris fyrir hvert ár. Helstu tekjuliðir eru að sjálfsögðu iðgjöld og munar þá mestu um iðgjöld launagreiðenda enda eru þau stærra hlutfall af launum en hlutfall launþega eða sjóðsfélaga. Sjóðirnir hafa einnig, eins og gefur að skilja, tekjur af fjárfestingarstarfsemi sinni en lífeyrissjóðirnir eru, sem kunnugt er, stærstu stofnanafjárfestar landsins. Á sama hátt og iðgjöld eru helsti tekjuliður lífeyrissjóðanna eru lífeyrisgreiðslur helsti útgjaldaliður þeirra en auk þeirra hafa sjóðirnir útgjöld vegna fjárfestinga sem og rekstrarkostnaðar.

Hrein eign þeirra til greiðslu lífeyris jókst talsvert á árinu. Á það við um alla sjóðina en mest var aukningin hjá Lífeyrissjóði verzlunarmanna, um 9,5%, og Stapa lífeyrissjóði, 8,7%. Athygli vekur að hrein eign Lífeyrissjóðs verkfræðinga jókst um 8,2% á milli ára. Hrein eign til greiðslu lífeyris eru eignir sjóðanna að frádregnum skuldum þeirra.

Þegar sjóðsstreymi er skoðað nánar kemur í ljós að ráðstöfunarfé sjóðanna allra hefur einnig aukist mikið á árinu en ráðstöfunarfé er mismunurinn á innstreymi og útstreymi. Hafa ber í huga að til innstreymis teljast líka tekjur af sölu eigna og sjóðsstreymi vegna lánastarfsemi sjóðanna. Eins og gefur að skilja jókst ráðstöfunarfé stærstu sjóðanna, LSR, Lífeyrissjóðs verzlunarmanna og Gildis, mest og á eftir þeim kom Sameinaði lífeyrissjóðurinn. Ráðstöfunarfé hans jókst um 45 milljarða á árinu, sem hlýtur að teljast mjög gott í ljósi þess hversu miklu minni en hinir fyrrnefndu Sameinaði er.

Nánar er fjallað um afkomu lífeyrissjóðanna í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast tölublað undir tölublöð.