Hagsmunasamtökin VERTOnet voru stofnuð 17. apríl 2018 til að standa vörð um hagsmuni kvenna í upplýsingatækni. Fyrirmyndin er sótt til Noregs, en þar voru sambærileg samtök stofnuð árið 2006 og eru orðin mjög stór í dag.

Markmið félagsins er að fjölga konum í greininni almennt, með sérstaka áherslu á að fá fleiri konur í stjórnunarstörf innan hennar. Starfið er unnið í samstarfi við og með stuðningi upplýsingatæknifyrirtækjanna.

Félagið telur um 450 félagskonur í dag, sem er mun meira en stofnendur þorðu að vona. Markmiðið var að ná 400 í lok árs 2019, sem þær töldu bjartsýni. Konur eru taldar vera um 28% starfsmanna í greininni í dag.

Konur enn færri í tæknilegri störfunum
Linda B. Stefánsdóttir, ein stofnenda VERTOnet, segir flest benda til þess að ekki bara sé hlutfall kvenna í greininni lágt, heldur séu þær í meira mæli í störfum sem tengjast upplýsingatækni óbeint heldur en karlkyns kollegar þeirra. „Fæstar af þessum 25-30% eru að vinna í tækninni í raun og veru. Þær eru mikið meira í hliðartengdum störfum: fjármálum, markaðsmálum og þess háttar,“ segir Linda.

Ein af ástæðunum fyrir því að konur endist ekki í tæknitengdari störfum innan greinarinnar segir hún vera að konur upplifi það sem mjög karllægan heim, enda sé það mjög algengt að vera eina konan í stórum hóp. „Það svosem kom okkur ekki á óvart að sjá þetta, við finnum það bara sjálfar. Þú ferð á fund og það eru sjö manns á fundinum og þú ert eina konan.“

Mikilvægt að konur komi að þróun gervigreindar
Linda tekur gervigreind sem dæmi um mikilvægi aukinnar aðkomu kvenna að upplýsingatækni. Gervigreind er sífellt að hasla sér völl á hinum ýmsu sviðum, en Linda segir mikilvægt að hún sé þróuð af báðum kynjum til að tryggja víðsýni og jafnvægi. „Ef við höfum svona skakkt hlutfall kvenna og karla þá er hætt við því að gervigreindin verði svolítið karllæg og ákveðin sjónarmið fái ekki að heyrast. Við erum og verðum alltaf ólík að einhverju leyti, kynin, og það þarf upplýsingatæknin að nýta sér.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .