Söngkonan Ragnhildur Gísladóttir, sem um árabil hefur verið kennd við Grýlurnar og Stuðmenn, er skráð fyrir 14% hlut í útgerðinni Bergur Huginn í Vestmannaeyjum. Mágur hennar, athafnamaðurinn og fjárfestirinn Magnús Kristinsson, átti á árum áður meirihluta í útgerðinni með bróður sínum Birki, manni Ragnhildar. Einkahlutafélag söngkonunnar var stofnað árið 2009.

Birkir var skráður fyrir þessum sama hlut fram til ársins 2009 þegar hann færði hann inn í einkahlutafélagið BK-44 ehf. BK-44 fór af hluthafalista Bergs Hugins í fyrra og tók félag Ragnhildar, RGísla ehf, sæti þess. Nafni félags Röggu hefur nú verið breytt í Cappa ehf.

Undir BK-44 heyrði BK-44 II, sem átti 30% hlut í fjárfestingarfélaginu Gnúpi.

Svipaðar hræringar hafa átt sér stað á hluthafalista Berg Hugins. Magnús Kristinsson var á árum áður skrifaður fyrir 77% hlut í útgerðinni á móti bróður sínum. Árið 2009 eignaðist Landsbankinn hins vegar 45% hlut í henni. Eignahlutur Magnúsar fór við það niður í 41%.

Lítil umsvif hjá Röggu Gísla

Uppgjör félags Ragnhildar fyrir síðasta ár liggur ekki fyrir. Ljóst er hins vegar af uppgjörinu frá árinu 2010 að umsvifin eru lítil. Rekstrartekjur voru engar. Á móti nam annar rekstrarkostnaður 477.100 krónum. Eignfærður kostnaður nam 459.900 krónum og er 17.200 króna mismunur skráður sem hagnaður.

Eignir félagsins árið 2010 voru verk í vinnslu upp á 459.900 krónur samanborið við 411.500 krónur árið 2009. Eigið fé nam 394.300 krónum í lok árs 2010.

Fjallað er um Gnúp í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins, sem kom út í dag. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.