„Ég er ekki sammála Svandísi Svavarsdóttur, fyrrverandi umhverfisráðherra, í því að þær athugasemdir sem voru gerðar við náttúrurverndarlög síðustu ríkisstjórnar hafi verið teknar til greina,“ segir Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra. Svandís sagði í viðtali við RÚV í morgun að komið hafi verið til móts vð gagnrýni þegar lögin voru sett.

Eins og kunnugt er hefur Sigurður Ingi Jóhannsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, boðað frumvarp sem ætlað er að fella úr gildi náttúruverndarlög sem ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur fékk samþykkt í vor. Hún segir að ágreiningurinn um það mál á síðasta kjörtímabili hafi verið gríðarlegur og undirskriftum safnað til að andmæla lögunum.

Ragnheiður Elín segir mikilvægt að „reyna að tryggja það að sú löggjöf sem verður á endanum niðurstaðan verði þannig að við getum verið sátt um hana,“ segir Ragnheiður Elín. Hún vekur athygli á því að ef nýju náttúruverndarlögin verða felld úr gildi muni eldri náttúruverndarlögin taka við.