Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir að báðir stjórnarflokkar fyrri ríkisstjórnar, Sjálfstæðisflokkur og Samfylking, hafi vitað um minnisblaðið sem undirritað var á milli Íslands og Hollands sl. haust vegna Icesave. Ragnheiður tekur undir með fjármálaráðherra að minnisblaðið hafi ekki hjálpað í samningaviðræðunum, en sakar þingmenn Samfylkingarinnar í umræðunum um að skjóta sér undan ábyrgð á málinu.

Ragnheiður  segir að embættismaður úr utanríkisráðuneytinu hafi verið viðstaddur þegar gengið hafi verið frá minnisblaðinu og segir rétt að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi utanríkisráðherra upplýsi um málið. Hún segir einnig fráleitt að fyrrverandi viðskiptaráðherra, Björgvin G. Sigurðsson, hafi ekki verið upplýstur um það.

Deilt á Samfylkinguna fyrir fjarveru við umræðurnar

Umræður standa nú yfir á Alþingi um ríkisábyrgð á lántöku Tryggingasjóðs innstæðueigenda og fjárfesta og í umræðunum kemur fram hörð gagnrýni frá stjórnarandstæðingum. Gagnrýnin hefur ekki aðeins beinst að efnisatriðum málsins, heldur einnig að því að þingmenn Samfylkingarinnar skuli vera lítið viðstaddir umræðurnar. Birkir Jón Jónsson, þingmaður Framsóknarflokksins, kvaddi sér hljóðs um fundarstjórn forseta og gagnrýndi Samfylkinguna fyrir fjarveru. Hið sama gerði Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, en hún er þessa stundina í ræðustóli.