Það voru ekki aðeins stjórnarmenn sem voru að selja stofnfjárhluti í SPRON þann stutta tíma sem "glugginn" til viðskipta var opinn fyrir viðskipti eftir að ákvörðun hafði verið tekin um að SPRON skyldi skráður á markað. Í hópi þeirra sem seldu hluti voru aðstandendur stjórnarmanna, starfsmenn SPRON, ráðherra og þingmaður samkvæmt yfirliti yfir viðskipti sem Viðskiptablaðið hefur undir höndum.

Kaupendur þessara bréfa, sem komu út á markaðinn eftir ákvörðun um skráningu, eru margir hverjir afar ósáttir þar sem þeir telja að ónægar upplýsingar hafi legið fyrir þegar gengið var frá viðskiptum auk þess sem rannsaka þurfi hvort lög um innherjaviðskipti hafi verið brotin.

Eins og áður sagði voru margir sem seldu stofnfjárhluti sín á fyrrnefndu tímabili. Össur Skarphéðinsson, þáverandi iðnaðarráðherra og núverandi utanríkisráðherra, seldi alla 10 milljón stofnfjárhluti í sína að nafnvirði. Markaðsvirði hlutanna hefur verið um 40 til 60 milljónir, sé mið tekið af algengu markaðsverði sem var allt frá 4- til 7-falt nafnvirði. Össur staðfesti við fjölmiðla í morgun, eftir að frétt Viðskiptablaðsins kom fram, að hann hefði hagnast selt hluti sína á 62 milljónir. Í viðtali við Ríkisútvarpið sagðist hann skilja reiði þeirra sem keyptu en hann hefði einungis haft í höndum sömu upplýsingar og almenningur hafði, í gegnum fjölmiðla. Össur sagðist enn fremur hafa selt bréfin þar sem hann var nýlega tekinn við ráðherraembætti, en hann eignaðist stofnfjárhlutina á árunum 1988 eða 1989.

Þá seldi Áslaug Björg Viggósdóttir, eiginkona Guðmundar Haukssonar sparisjóðsstjóra, rúmlega 10 milljón hluti að nafnvirði. Halldór Kolbeinsson, eiginmaður Hildar Petersen, seldi um 1,5 milljón hluti að nafnvirði. Hildur seldi sjálf rúmlega 5 milljón hluti. Jón Gunnar Tómasson, fyrrverandi stjórnarformaður SPRON, seldi um 400 þúsund hluti, og dóttir hans seldi fyrir litlu minna.

Minnsta kosti fimm dæmi eru um að starfsmenn SPRON, eða makar þeirra, hafi selt hluti í sjóðnum. Í flestum tilvikum er þó um litla hluti að ræða.

Skúli Þorvaldsson, sem var stór hluthafi og viðskiptavinur Kaupþings, seldi hluta af stórum hlut félags síns Imis ehf. í SPRON. Samtals seldi hann um 115 milljónir hluta en hélt þó eftir rúmlega 760 milljónum hluta að nafnvirði. Félag í eigu Sigurðar Einarssonar, þáverandi stjórnarformanns Kaupþings, seldi einnig um 4 milljónir hluta samtals. Félögin, Svellhamar ehf. og fleiri, sem Sigurður átti hlut í, héldu þó enn eftir tæplega 60 milljónum stofnfjárhluta eftir söluna. Árni Þór Sigurðsson, þingmaður Vinstri grænna, seldi tæplega 1,3 milljónir stofnfjárhluti að nafnvirði en hélt eftir litlum hlut, 322 þúsund að nafnvirði.

Birkir Baldvinsson og Guðfinna Guðnadóttir, sem bæði eru skráð til heimilis í Sameinuðu arabísku furstadæmunum, seldu hvort um sig ríflega 6,4 milljónir hluta. Þá seldi Magnús Már Gústafsson, sem skráður er í Bandaríkjunum, um 7 milljónir hluta að nafnvirði.

Sjá ítarlega umfjöllun í Viðskiptablaðinu í dag.