Guðlaugur Þór Þórðarson, heilbrigðisráðherra, veitti í gær fjórtán styrki sem ætlað er að hvetja heilbrigðisstarfsmenn sjálfa til dáða á sviði gæðamála. Fram kemur í tilkynningu frá heilbrigðisráðuneytinu að þetta sé í sjöunda sinn sem styrkir af þessu tagi eru veittir.

Styrkupphæðin nemur þremur milljónum króna, en 55 styrkumsóknir bárust.

„ Heilbrigðisstofnanir víðs vegar um landið leggja umtalsverða fjármuni til gæðastarfs á ári hverju bæði með sérstökum gæðanefndum, með ráðstefnum, fundum og með því að leggja með öðrum hætti áherslu á gæðastarf í starfsemi sinni. Styrkirnir sem heilbrigðisráðherra veitir eru beinn stuðningur við tiltekin verkefni starfsmanna veittir til að hvetja þá til að huga sérstaklega að gæðastarfi í daglegum störfum sínum, en venjulega er það þverfaglegur hópur heilbrigðisstarfsmanna sem stendur að hverri umsókn,” segir í tilkynningu.