Hætt er við því að Íslendingar missi úr landi þá miklu þekkingu og reynslu sem skapast hefur meðal þjóðarinnar í álframleiðslu og tengdum greinum.

Þetta sagði Rannveig Rist, forstjóri Rio Tinto Alcan á Íslandi, í erindi sínu á aðalfundi Samtaka atvinnulífsins (SA) sem nú stendur yfir.

Í erindi sínu rifjaði Rannveig upp að álverið í Straumsvík hefði á síðustu árum keypt verkfræðiþjónustu fyrir um 11 milljarða króna. Hún sagði þekkinguna í greinum á borð við vélaverkfræði og öðrum hliðargreinum við álframleiðslu vera mikilvæga en það væri áhyggjuefni hversu fáir eru að útskrifast úr sambærilegum greinum úr háskólum landsins í dag.

Þá sagði Rannveig að íslenskir stjórnmálamenn áttuðu sig ekki á því hversu mikil nýsköpun og þekking væri til í þessum geira. Hún sagði stjórnmálamenn í flestum tilvikum ræða um að nýsköpun, þróun og vöxtur muni eiga sér stað í „einhverju öðru“ eins og hún orðaði það en kysu að horfa framhjá nýsköpun og vexti í véla- og tækniframleiðslu svo dæmi séu tekin.