Rannveig Rist, forstjóri Rio Tinto Alcan á Íslands, hlýtur Viðskiptaverðlaun Viðskiptablaðsins í ár.

Verðlaunin voru afhent við árlega athöfn nú í hádeginu en það var Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra sem afhenti verðlaunin.

Björgvin Guðmundsson, ritstjóri Viðskiptablaðsins sagði í ræðu sem haldin var við athöfnina að í þau 14 ár sem Rannveig hefði verið forstjóri hjá Ísal hafi menn ef til vill litið á álverið í Straumsvík sem sjálfsagðan hlut sem muni veita þeim 450 einstaklingum sem þar starfa vinnu til frambúðar.

Það sé þó ekki þannig, sérstaklega þegar um að ræða stór alþjóðleg fyrirtæki.

Í viðtal við áramótatímarit Viðskiptablaðsins bendir Rannveig sjálf á að verið sé að loka jafnvel yngri verksmiðjum en í Straumsvík út um allan heim.

„Réttar ákvarðanir Rannveigar og samstarfsmanna hennar urðu hins vegar til þess að verksmiðjunni var haldið í fullum rekstri,“ sagði Björgvin.

„Framleiðslunni var breytt í takt við eftirspurn eftir ódýrari vöru. Engum var sagt upp vegna samdráttar og starfsmenn voru reiðubúnir að framleiða dýrari vöru þegar markaðurinn fyrir ál rétti úr kútnum aftur. Taprekstri var snúið við í hagnað.“

Þá kom einnig fram að í upphafi árs 2008 gerði Rannveig sér grein fyrir í hvað stefni á Íslandi. Í mars greindi hún æðstu stjórnendum Rio Tinto frá því að hún vildi greiða upp allar skuldir félagsins á Íslandi. Í júní sama ár var það orðið skuldlaust. Teymi hennar var búið undir bankahrunið og þegar að því kom sá ákveðið neyðarteymi um að tryggja öll aðföng til starfseminnar.

„Af hverju er tilefni til að rifja upp ákvarðanir frá árinu 2008 og 2009 þegar við erum að veita viðskiptaverðlaunin fyrir árið 2010? Jú, þessar ákvarðanir og árangur áttu sinn þátt í því að stjórnendur Rio Tinto tilkynntu um samtals 60 milljarða króna fjárfestingu í Straumsvík á árinu,“ sagði Björgvin.

„Sú tilkynning kom á mikilvægum tíma þegar talað var um mikilvægi erlendrar fjárfestingar á Íslandi til að stuðla að hagvexti og bættum lífskjörum – á meðan flestir héldu að sér höndum.“

Rannveig Rist er því vel að viðskiptaverðlaunum Viðskiptablaðsins komin. Hún er auk þess fyrsta konan í íslensku viðskiptalífi sem hlýtur verðlaunin frá því þau voru afhent fyrst árið 1996.