Tilvist Teymis á hlutabréfamarkaði hefur reynst hluthöfum þung í skauti. Félagið hefur fallið geysimikið í verði frá áramótum – svo mikið að það leiðir lækkanahrinuna í Kauphöllinni á erfiðum tímum er margir fjárfestar sitja eftir með sárt ennið. „Þetta eru vonbrigði og ég tel að þetta endurspegli ekki stöðu félagsins,“ segir Árni Pétur Jónsson, forstjóri Teymis, í samtali við Viðskiptablaðið. Nokkuð opinber umræða hefur farið fram um mögulega afskráningu Teymis af hlutabréfamarkaði.

Greiningardeild Glitnis teflir þessu fram sem valkosti fyrir stjórnendur á erfiðum tímum í rekstri félagsins í afkomuspá fyrir annan ársfjórðung. Einnig hefur greiningardeild Kaupþings skrifað í Hálffimm fréttum að einhver skráð fyrirtæki muni að líkindum sækjast eftir afskráningu án þess að nefna nein þeirra á nafn. Spurður hvort þetta sé til umræðu segir Árni Pétur að greiningardeildunum sé frjálst að koma með ýmsar vangaveltur en segist ekki geta tjáð sig um málið.

Yfirtaka líklega ekki spennandi fyrir hluthafa

Teymi hefur fengið stóran skell síðustu tvo daga: Í gær lækkaði félagið um 8 % og daginn áður um 13%. Frá áramótum nemur lækkunin 73%. Á sama tíma hefur Úrvalsvísitalan lækkað um 32%. Og tvo umrædda daga var vísitölunnar 0,7% og 1,5%. Félagið er þar með að fá mun verri útreið en Úrvalsvísitalan. Lækkunin hjá Teymi á sér stað í til þess að gera fáum viðskiptum og litlum. Sérfræðingar telja í samtali við Viðskiptablaðið að lækkunin stafi meðal annars af því að litlir fjárfestar séu að stökkva frá borði í ljósi umræðu um mögulega yfirtöku á félaginu. Og benda þeir á að þau félög sem hafa verið yfirtekin að undanförnu hafi boðið hluthöfum lítið yfirverð fyrir bréf sín.

______________________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .