Fasteignafélagið Reginn, sem er dótturfélag Landsbankans, skilaði 66 milljóna króna hagnaði á fyrri helmingi ársins sem er 18 miljörðum meira en á sama tímabili í fyrra. Eignir félagsins jukust um 11 milljarða króna á milli ára samkvæmt fréttatilkynningu frá Landsbankanum. Heildareignir námu um mitt ár 34 milljörðum króna.

„Rekstrartekjur félagsins á fyrstu sex mánuðum ársins 2011 námu 1.411 milljónum króna samanborið við 965 milljónir króna fyrir sama tímabil árið 2010. Rekstrarhagnaður fyrir fjármagnsliði nam 727 milljónum króna samanborið við 336 milljónir króna fyrir sama tímabil árið 2010. Hækkun á veltu milli ára skýrist af stærra eignasafni.

Félagið skilar hagnaði á fyrri helmingi ársins 2011 þrátt fyrir háa verðbólgu á tímabilinu en félagið er að mestu leyti fjármagnað með verðtryggðum íslenskum lánum. Fjármagnsgjöld voru 697 milljónir króna á fyrri árshelmingi  2011 samanborið við 262 milljónir króna fyrir sama tímabil árið áður. Í júnílok var eigið fé félagsins rúmlega 4,5 milljarðar króna af 34,1 milljarða króna heildareignum eða rúm 13%.

Framkvæmdir á vegum Regins hafa verið umfangsmiklar á árinu. Endurbygging á fasteigninni Suðurlandsbraut 14 hefur staðið yfir, en í sumar opnaði Íslandsbanki nýtt útibú og skrifstofur í húsinu. Í Vetrargarðinum í Smáralind standa yfir framkvæmdir en þar verður opnaður innanhússskemmtigarður í haust. Framkvæmdir við 22 brauta keilusal ásamt veitingastöðum munu hefjast með haustinu á 1. hæð Egilshallar. Leigutaki er  dótturfélag Keiluhallarinnar ehf.

Reginn hefur á árinu og undir lok síðasta árs selt sex fasteignir og er söluverðmæti þeirra um 1,5 milljarðar króna.

Í tengslum við fyrirhugaða skráningu er unnið að breytingu á samsetningu eignasafns félagsins sem og fjárhagsskipan þess þannig að eigið fé félagsins verði styrkt,“ segir í tilkynningunni en sem kunnugt er verður Reginn skráður á markað og er stefnt að skráningu á fyrri helmingi næsta árs.