Reglur um val stjórnarmanna í lífeyrissjóði hér á landi áþekkt því sem þekkist í Evrópu. Þetta kemur fram í skýrslu sem Tryggvi Þór Herbertsson, forstöðumaður Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, hefur tekið saman um skipan stjórna lífeyrissjóða fyrir Landssamtök lífeyrissjóða. Í skýrslunni er farið yfir fyrirkomulag stjórna lífeyrissjóða í nokkrum löndum, auk þess sem lítillega er fjallað um hvaða vandamál mismunandi skipulag stjórna skapar.

Greint er frá niðurstöðu skýrslunnar inni á vef Landssamtaka lífeyrissjóða. Þar kemur fram að á undanförnum misserum hafa átt sér stað umræður í fjölmiðlum og víðar um það hvernig menn eru valdir í stjórnir íslensku lífeyrissjóðanna og hvort núverandi stjórnskipulag íslensku sjóðanna sé séríslenskt fyrirbæri eða eigi sér fyrirmynd í nágrannalöndunum. Til að reyna að varpa ljósi á þessi atriði var ákveðið að leita til Tryggva Þórs Herbertssonar, forstöðumans Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, til að taka saman skýrslu um skipan stjórna lífeyrissjóða fyrir Landssamtök lífeyrissjóða.

Stjórnun lífeyrissjóða virðist í meginatriðum vera líkt háttað í þeim löndum sem voru til skoðunar.. Ef um opna sjóði er að ræða virðist meginreglan vera svipuð þeirri sem hér tíðkast, þ.e. að vörsluaðili og sjóðfélagar skipi stjórn, oftast til helminga, og eru fulltrúar sjóðfélaga kosnir á aðalfundi. Fyrirtækjasjóðir á borð við þá sem þekkjast í flestum löndunum nema á Íslandi eru skipaðir fulltrúum fyrirtækis og fulltrúum starfsmanna og fer val fulltrúa launþega yfirleitt fram á aðalfundi. Lokaðir sjóðir, líkt og eru meginregla hér á Íslandi, eru nær alltaf skipaðir fulltrúum launþega og fulltrúum atvinnurekenda til helminga.

Ef um starfsgreinasjóði er að ræða velur verkalýðsfélag yfirleitt fulltrúa launþega í stjórnina og heildarsamtök atvinnurekenda hina stjórnarmennina.. Það fyrirkomulag sem tíðkast á Íslandi við val stjórnarmanna virðist því ekki vera frábrugðið því sem almennt gerist í Evrópu. Þetta er athyglisvert í því ljósi að nokkur gagnrýni hefur komið fram á fyrirkomulag það sem haft er um val í stjórnir lífeyrissjóða á almennum vinnumarkaði og því haldið fram að eðlilegra sé að velja stjórnir á almennum opnum fundum sjóðfélaga. Slík aðferð við val í stjórnir starfsgreinasjóða virðist hins vegar heyra til undantekninga í viðmiðunarlöndunum.

Svipaðar reglur virðast gilda um hæfi stjórnarmanna í öllum löndunum. Yfirleitt er ekki farið fram á neina sérþekkingu, en þó eru til dæmis í Hollandi dæmi um að samanlögð þekking stjórnar þurfi að vera nokkuð yfirgripsmikil og getur eftirlitsaðili stöðvað skipun stjórnar ef honum sýnist hún ekki vera næg. Í öllum löndunum er farið fram á að stjórnarmenn séu ráðvandir og hafi ekki verið dæmdir fyrir brot sem snúa að rekstri. Reglur á Íslandi um hæfi stjórnarmanna virðast vera mjög í takt við það sem almennt gerist í Evrópu.

Mismunandi er hvaða reglur gilda um lengd kjörtímabils stjórnar. Í flestum löndunum er kjörtímabil þrjú ár eða lengra. Hvergi gilda neinar reglur um hve stjórnarmaður getur setið mörg kjörtímabil.

Almennt virðast reglur um stjórn íslensku lífeyrissjóðanna vera mjög áþekkar því sem gerist í nágrannalöndum okkar í Evrópu.