*

fimmtudagur, 24. september 2020
Erlent 11. febrúar 2020 11:42

Reikna ekki með 737 Max á árinu

TUI, stærsta ferðaskrifstofa heims, gerir ekki ráð fyrir Max-vélunum á þessu ári.

Ritstjórn
Friedrich Joussen, forstjóri TUI ferðskrifstofunnar.

TUI Group birti í morgun uppgjör fyrir 4. ársfjórðung. Tekjur félagsins á fjórðungnum námu 3,9 milljörðum evra sem er 7% aukning frá sama tíma í fyrra. TUI er stærsta ferðaskrifstofa heims í dag. Þetta kemur fram á vef Financial Times. TUI var stofnað árið 1923 og er með höfuðstöðvar í Hannover og Berlín í Þýskalandi.

TUI hefur aldrei fengið jafn margar bókanir í byrjun árs og það fékk nú í janúar. Bókanir fyrir sumarið hafa aukist um 14% á milli ára, sem þykir sína að TUI hafi hagnast töluvert á gjaldþroti Thomas Cook ferðaskrifstofunnar í september. Eftir gjaldþrotið gekk TUI inn í ýmsa hótel-samninga sem Thomas Cook hafði við Miðjarðarhafið. Auk þess bætti TUI 21 flugvél í flotann. Strax eftir birtingu uppgjörsins hækkaði hlutabréfaverð TUI um 12%.

TUI hafði pantað 15 Boeing 737 Max farþegaþotur þegar tvö mannskæð flugslys urðu til þess að þoturnar voru kyrrsettar. Í desember tilkynnti TUI að tap félagsins vegna kyrrsetningarinnar næmi um 300 milljónum evra eða tæpum 42 milljörðum króna. Á fundinum í morgun kom fram að vegna sterkrar bókunarstöðu geri TUI ráð fyrir tekjuvexti á þessu ári þrátt fyrir að viðurkenna að það geri ekki ráð fyrir að Max-vélarnar fari í loftið. (e. ... despite acknowledging that it did not expect to run the 737 Max aircraft this year).

Friedrich Joussen, forstjóri TUI, sagðist reikna með bótagreiðslum frá Boeing á árinu og að samningaviðræður þess efnis stæðu yfir. Reiknað er með að bæturnar verði tvískiptar. Hluti verður greiddur í reiðufé en hluti verði formi afsláttar af framtíðarpöntunum frá Boeing.

Stikkorð: Boeing Boeing MAX