Skráðum félögum mun fjölga um allt að helming næsta eina og hálfa árinu og má búast við að Reitir, TM, N1 og Advania munu þá öll verða skráð á hlutabréfamarkað. Greining Íslandsbanka fjallar um málið í Morgunkorni dagsins í tengslum við hlutafjárútboð Eimskips sem hefst í dag og væntanlegrar skráningar á markað 16. nóvember næstkomandi.

Í Morgunkorninu segir m.a. að skráning Eimskips verði þriðja nýskráningin hér frá hruni. Hlutabréf Haga voru skráð á markað í desember í fyrra og bréf fasteignafélagsins Regins í júlí.

Ísland langt undir meðaltalinu

Bent er á það í umfjöllun greiningardeildarinnar að markaðsvirði þeirra sex skráðu félaga sem nú eru á aðallista Kauphallarinnar er  í kringum 273 milljarðar króna. Það svarar til um 16% af áætlaðri vergri landsframleiðslu í ár. Þetta er afar lágt hlutfall í alþjóðlegum samanburði en skráð hlutabréf eru að meðaltali 72% af vergri landsframleiðslu innan OECD-ríkjanna. Á evrusvæðinu  er þetta hlutfall að meðaltali 42%. Miðað við það ætti markaðsvirði skráðra hlutabréfa að vera að minnsta kosti 850 milljarðar króna eð um 500 milljörðum meira en það er í dag.

Óvíst með nokkur félög

Í Morgunkorninu er bent á að hafa verði í huga að hjá flestum þeirra félaga sem búist er við að verði skráð á markað á næstu 18 mánuðum gæti töluverðrar óvissu um stöðu undirbúnings vegna skráningarferils þeirra og ljóst að ekki er á vísan að róa hvort af skráningu þeirra verður eður ei. Önnur félög sem einnig hafa verið nefnd til sögunnar en greining Íslandsbanka telur ólíkegt að verði tilbúin á allra næstu misserum eru m.a. Vís, Sjóvá, Skeljungur, Promens og Marorka.

Fjallað var um uppganginn á hlutabréfamarkaði í síðasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast umfjöllun blaðsins hér að ofan undir liðnum Tölublöð.