Viðurlaganefnd Nasdaq Iceland hefur komist að þeirri niðurstöðu að Rekstrarfélagi Virðingar skuli gert að greiða tvö févíti að upphæð samtals 2,5 milljóna króna fyrir að veita ófullnægjandi upplýsingar í lýsingu skuldabréfa sem tekin voru til viðskipta 10. júlí á síðasta ári. Þetta kemur fram í markaðstilkynningu frá Kauphöllinni.

Í tilkynningunni segir að lýsing skuldabréfanna hafi verið staðfest 30. júní 2014. „Dagsetning fjárhagsupplýsinga í lýsingu miðaðist við 31. desember 2013. Heildareignir sjóðsins voru þar sagðar nema um 11.290 m. kr. Þess var hvergi berum orðum getið í lýsingu að eftir dagsetningu fjárhagsupplýsinga hefðu hlutdeildarskírteinishöfum verið greiddar út 500 m. kr. hinn 22. janúar 2014 og 482 m. kr. hinn 4. júní 2014. Samanlagt var um að ræða u.þ.b. 9% af heildareignum sjóðsins miðað við fjárhagsupplýsingar í lýsingu.

Það var fyrst 22. ágúst 2014, þegar árshlutauppgjör fyrir fyrri helming ársins 2014 var birt opinberlega, að fram komu upplýsingar um að hrein eign sjóðsins hefði verið neikvæð um 25,5 m. kr. vegna útborgunar til hlutdeildarskírteinishafa. Þann dag ákvað Kauphöllin að athugunarmerkja bréfin,“ segir í markaðstilkynningunni.

Viðurlaganefnd Kauphallarinnar komst að þeirri niðurstöðu að Rekstrarfélagi Virðingar beri að greiða 1,5 milljón króna févíti vegna brota á ákvæðum 4.1.2 og 4.2.1 í reglum fyrir útgefendur fjármálagerninga, og 1 milljón króna fyrir brot á ákvæðum 3.3.1 og 3.1.4 í reglunum.