Rekstrarhagnaður (EBITDA) Kögunar samstæðunnar nam 276 mkr. á fyrstu 9 mánuðum ársins samanborið við tæplega 148 mkr. árið áður. Hagnaður samstæðunnar fyrir skatta varð 278 mkr. fyrstu níu mánuði ársins 2004 en var 304 mkr. á sama tímabili árið 2003. Þetta er lækkun um 26 mkr. eða tæp 9% sem skýrist m.a. af því að í þriðja fjórðungi 2003 var bókfærður söluhagnaður af hlutabréfum í Navision Software Ísland hf. og Ax Business Intelligence A/S að upphæð 174 mkr. Hagnaður fyrstu níu mánuði ársins eftir skatta varð 227 mkr. og hagnaður á hverja krónu hlutafjár nam 1,90 kr. Öll félögin innan Kögunarsamstæðunnar skiluðu hagnaði á tímabilinu.

Hafa ber í huga að milli ára hefur Navision Ísland ehf. verið selt úr samstæðunni en Ax hug­búnaðar­hús hf., Hugur hf. og Landsteinar Strengur hf. hafa bæst við. Þessar breytingar torvelda samanburð við fyrri ár.

Rekstrartekjur samstæðu Kögunar hf. námu samtals 2.282 mkr. á fyrstu níu mánuðum ársins 2004, samanborið við 818 mkr. á sama tímabili 2003. Veltuaukning er 1.464 mkr. eða 178%. Rekstrargjöld námu samtals 2.006 mkr. en rekstrargjöld voru 671 mkr. á sama tímabili 2003. Samkvæmt ofangreindu er EBITDA því 276 mkr. eða 12%. Eins og fram hefur komið í fyrri afkomufréttum félagsins á árinu hefur allur kostnaður við breytingar á húsnæði félagsins að fjárhæð um 40 mkr. verið gjaldfærður á tímabilinu og er það í samræmi við reiknings­skilahefðir Kögunar. Hefðu framkvæmdirnar verið eignfærðar og afskrifaðar á lengri tíma, væri EBITDA 316 mkr. eða 13,8%.

Afskriftir eru 14 mkr. en voru 17 mkr. á sama tímabili árið 2003. Hagnaður fyrir fjármagnsliði nemur samtals 262 mkr. en var 131 mkr. á sama tímabili árið 2003. Hagnaður fyrir fjármagnsliði hækkar þannig um 131 mkr. eða 100% á milli ára.

Fjármunatekjur umfram fjármagnsgjöld nema samtals 16 mkr. en voru 173 mkr. á sama tímabili á árinu 2003 og er þetta lækkun um 157 mkr. Vaxtatekjur eru 51 mkr., hlutdeild í afkomu hlutdeildarfélaga er 5 mkr. og hagnaður af sölu hlutabréfa er 81 mkr. Á árinu hefur verið seldur 10% hlutur í Þekkingu hf., 33% hlutur í Landsteinum Nederland BV í Hollandi og 100% hlutur í Alpha Landsteinar Ltd. í Bretlandi, þar af helmingur á þriðja fjórðungi. Vaxtagjöld nema 107 mkr. og vega þar þyngst vextir og verðbætur af 500 mkr. skuldabréfaláni sem boðið var út í árslok 2003. Niðurfærsla á eignarhlutum í félögun er 14 mkr.

Hagnaður samstæðunnar fyrir tekjuskatt fyrstu 9 mánuði ársins er samtals 278 mkr. en var 304 mkr. fyrir sama tímabil á árinu 2003.

Gjaldfærður tekjuskattur er áætlaður sem 18% af afkomu fyrir skatta eða 51 mkr. Eignar­skattur er áætlaður sem hlutfall af eignarsköttum síðasta árs en færist nú með öðrum rekstrar­kostnaði. Sú breyting hefur orðið frá fyrra ári að í samstæðureikningi er nú eign­færð reiknuð tekjuskattsinneign að upphæð 255 mkr. vegna ójafnaðs skattalegs taps dótturfélaga Kögunar. Benda má á að í skýringu nr. 19 í árshlutareikningnum kemur fram að með tilliti til varúðarsjónarmiða og óvissu um nýtingu yfirfæranlegs skattalegs taps hefur reiknuð skattinneign verið færð niður um 71 mkr. Inneign þessi nýtist dótturfélögunum á komandi árum að því marki sem þau verða rekin með hagnaði.

Hagnaður samstæðunnar eftir tekjuskatt tímabilið janúar ? september árið 2004 er því 227 mkr. en var 281 mkr. á sama tímabili árið 2003. Hagnaður tímabilsins á hverja krónu hlutafjár er 1,90 kr.

Heildareignir Kögunar hf. hinn 30. september 2004 námu 6.393 mkr. Á sama tíma voru heildarskuldir samstæðunnar 3.927 mkr.

Eigið fé Kögunar hf. í lok september 2004 er 2.466 mkr. en var 1.765 mkr. í lok ársins 2003. Frá ársbyrjun 2004 er gerð sú breyting á reikningsskilaaðferðum félagsins að viðskipta­vild er ekki afskrifuð línulega á tilteknum árafjölda heldur verður framkvæmt árlegt virðisrýrnunarpróf til að meta verðmæti hennar. Þetta er gert í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla. Við greiningu eigin fjár félagsins vísast til skýringar nr. 22 í árshlutareikningi.

Veltufé frá rekstri á tímabilinu janúar til september 2004 er 234 mkr. en var 124 mkr. á sama tímabili árið 2003 og er það hækkun um 110 mkr. eða 89%. Handbært fé frá rekstri er 185 mkr. en var 93 mkr. á sama tímabili árið 2003 og er það hækkun um 92 mkr. eða 99%. Fjárfestingarhreyfingar nema 2.857 mkr. á tímabilinu en voru 101 mkr. á sama tímabili 2003. Munar hér mestu um kaup Kögunar á 35,8% hlut í Opin Kerfi Group hf. að fjárhæð rúmlega 2.800 mkr. Fjármögnunarhreyfingar eru samtals 2.737 mkr., þar af er lántaka að fjárhæð 2.400 mkr. til að fjármagna hluta af fyrrnefndum kaupum Kögunar hf. á Opin Kerfi Group hr. Fjármögnunarhreyfingar sama tímabili 2003 voru 46 mkr.

Veltufjárhlutfall er 2,3, eiginfjárhlutfall er 39%, innra virði hlutafjár er 18,7 og arðsemi eigin fjár á ársgrundvelli er 18%.

Fyrstu níu mánuðir ársins 2004 hafa mótast af áframhaldandi hagræðingaraðgerðum og endurskipulagningu hjá dótturfélögunum, með þeim árangri að þau skila nú öll hagnaði. Unnið hefur verið að endurskoðun á vöru- og þjónustuframboði einstakra félaga m.t.t. hagræðingar og markvissari þjónustu við viðskiptamenn félaganna. Þá hefur fjármögnun félaganna verið endurskipulögð og óhagstæð lán greidd upp með hagstæðari lánum.