*

sunnudagur, 18. ágúst 2019
Innlent 13. júní 2018 10:24

Rekstri Víðis endanlega hætt

Á hurðum verslana Víðis stendur að lokað sé vegna breytinga þó það stefni í gjaldþrot. Verslanir verið á sölu frá því í haust.

Ritstjórn
Víðir í Skeifunni hefur starfað frá árinu 2011.
Birgir Ísl. Gunnarsson

Hjónin Eiríkur Sigurðsson og Helga Gísladóttir sem rekið hafa verslanirnar Víði frá árinu 2011 hafa tilkynnt að rekstri verslananna hafi verið hætt að því er Morgunblaðið segir frá.

Þó má sjá á útihurðum verslana Víðis sem lokað var á fimmtudag í síðustu viku tilkynningu um að lokað hafi verið vegna breytinga. Viðskiptablaðið greindi frá því í haust að þau hjónin vildu selja sig út úr rekstrinum, en um var að ræða fimm verslanir.

Sú fyrsta var opnuð í Skeifunni, en auk þess við Hringbraut, Garðatorgi, Borgartúni auk express verslunar við Ingólfsstræti.„Við stofnendur Víðis ehf., sem rekið hefur 5 matvöruverslanir á höfuðborgarsvæðinu undir sama nafni, höfum frá og með deginum í dag hætt rekstri þeirra,“ segir í tilkynningu frá hjónunum, en Eiríkur var stofnandi 10-11 sem síðar var selt til Haga.

Haft er eftir Þorsteini Skúla Sveinssyni sérfræðingi hjá VR að starfsmenn fyrirtækisins hefðu sagt að þau hefðu fengið tölvupóst seint í gærkvöldi frá forsvarsmönnum fyrirtækisins um að þeim væri ráðlagt að leita til VR þar sem fyrirtækið væri á leið í gjaldþrot.