*

miðvikudagur, 20. janúar 2021
Innlent 27. ágúst 2020 14:42

Reksturinn 10,4 milljörðum undir áætlun

Rekstrarniðurstaða Reykjavíkurborgar var neikvæð um 4,5 milljarða en áætlanir höfðu gert ráð fyrir jákvæðri niðurstöðu um 5,9 milljarða.

Ritstjórn
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri - mynd frá árinu 2016
Haraldur Guðjónsson

Rekstrarniðurstaða Reykjavíkurborgar var 10,4 milljörðum króna lakari á fyrri helmingi ársins en gert var ráð fyrir. Borgin rekur það einkum til lægri skatttekna og lægri tekjum af sölu byggingarrétta en gert var ráð fyrir í A-hluta borgarinnar. Í B-hlutanum voru niðurstaðan rakin til lækkaðs álverðs og gjaldfærslu gengismunar vegna veikingu krónunnar frá áramótum hjá Orkuveitunni.

Rekstrarniðurstaða A- og B-hluta var neikvæð um 4,5 milljarða króna, en áætlanir höfðu gert ráð fyrir jákvæðri niðurstöðu um 5,9 milljarða. Í A-hluta var niðurstaðan neikvæð um 3,1 milljarð en áætlun gerði ráð fyrir að hún yrði jákvæð um 736 milljónir. 

Heildareignir samstæðunnar námu 725 milljörðum, heildarskuldir ásamt skuldbindingum voru 378 milljarðar og eigið fé 346 milljónir.  Eiginfjárhlutfall samstæðunnar er nú 47,8% en var 49,9% um síðustu áramót.

„Reykjavíkurborg sér nú skýr merki um heimsfaraldurinn í fjárhagsuppgjöri fyrstu sex mánaða. Þyngst vegur tekjusamdráttur vegna atvinnuleysis og minni umsvifa í efnahagslífinu,“ er haft eftir Degi B. Eggertssyni borgarstjóra í fréttatilkynningu. 

„Áberandi tekjufall er einnig hjá Strætó og Faxaflóahöfnum. Hins vegar hafa aukin útgjöld fylgt viðbrögðum við Covid-19. Rekstur málaflokka hefur að öðru leyti gengið vel. Niðurstöðurnar eru í ágætu samræmi við sviðsmyndir og spár fjármálasviðs borgarinnar frá því í vor og undirstrika að standa þarf með sveitarfélögum við núverandi aðstæður enda bera þau uppi lykil grunnþjónustu í samfélaginu.“ 

Stikkorð: Reykjavíkurborg