Reksturinn hjá Opnum kerfum hélt áfram að batna á öðrum ársfjórðungi en 41 milljón króna hagnaður varð hjá félaginu samanborið við 22,3 milljóna króna tap á sama tíma í fyrra. Fyrstu sex mánuðina var því 99 milljóna króna hagnaður samanborið við 63 milljóna króna tap í fyrra.

Rekstrartekjur samstæðunnar námu á fyrri árshelmingi 7.497 milljónum króna samanborið við 5.113 milljónir króna á sama tímabili í fyrra og jukust því um nærri helming. Í Svíþjóð kom félagið Virtus AB inn í samstæðuna frá 1. júní 2003 og í Danmörku kom félagið DataRex A/S inn í samstæðuna 1. janúar 2004 en á Íslandi hverfur Tölvudreifing hf. úr samstæðunni 1. júlí 2003. Um 65% tekna koma nú erlendis frá.

Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) var 370 milljónir króna á fyrri árshelmingi en var 269 milljónir króna árið áður, sem er um 37% aukning á milli ára.

Vaxtagjöld eru nú 60,8 milljónir króna en voru á sama tímabili í fyrra 64,9 milljónir króna. Söluhagnaður á hlutabréfum er nú neikvæður um 7,1 milljón króna en var á sama tímabili í fyrra jákvæður um 15,7 milljónir króna. Niðurfærsla hlutabréfa er nú 38,1 milljónir en var áður 76,5 milljónir. Áhrif hlutdeildarfélaga eru nú neikvæð um 21,2 milljónir króna en voru neikvæð um 14,1 milljón króna á sama tímabili í fyrra.

Veltufé frá rekstri var 279 milljónir króna samanborið við 187 milljónir króna á fyrri árshelmingi 2003.

Rekstur á fyrri árshelmingi var samkvæmt áætlun. Rekstraráætlun ársins gerir ráð fyrir veltu á bilinu 14,5 til 15,5 milljarðar króna og EBITDA á bilinu 750 til 850 milljónir króna.