Eimskip og Qingdao Port Group hafa samið um rekstur Eimskips á stærstu kæli- og frystigeymslu í Kína, sem verður við Qingdao-höfnina, en skrifað var undir samkomulagið hjá forseta Íslands á Bessastöðum í gær. Bygging kæli- og frystigeymslunnar stendur yfir og verður geymslan tekin í notkun í september.

Eimskip verður eini rekstraraðili á kæli- og frystigeymslum í Qingdao-höfn og gerir samningurinn ráð fyrir að Eimskip muni kaupa frystigeymsluna og einnig byggja, ásamt Qingdao-höfn, aðra jafn stóra kæli- og frystigeymslu á sama svæði.

Staðsetning kæli- og frystigeymslunnar, sem liggur í um 100 metra fjarlægð frá hafnarsvæðinu, felur í sér ótvíræða kosti fyrir flutningsaðila en þetta er fyrsta geymslan sem byggð er á hafnarsvæði Qingdao sem er stærsta höfn Kína á sviði hitastýrðra flutninga.

Qingdao-höfn telur mikil tækifæri liggja í því að semja við Eimskip þar sem Eimskip er leiðandi á alþjóðavísu í hitastýrðum flutningum og styður öflugt flutninganet Eimskips tvímælalaust við möguleika Qingdao á að verða stærsta höfnin fyrir kældar og frystar sjávarafurðir í Asíu.

"Við sjáum mikil tækifæri í rekstri kæli- og frystigeymslu í Qingdao og við höfum háleit markmið um nýtingu geymslunnar hvað varðar flutninga til, frá og innan Asíu. Þetta er mjög spennandi verkefni og styður við núverandi starfsemi Eimskips í Kína en við höfum opnað fjórar skrifstofur þar á undanförnum árum og starfa nú um 100 manns á vegum Eimskips í Kína," segir Baldur Guðnason, forstjóri Eimskips, í fréttatilkynningu frá félaginu.

Baldur segir í samtali við Viðskiptablaðið að fyrsti hluti samningsins sé metinn á 20 til 30 milljónir evra. Hann segir að þegar ákveðið sé hverjir komi að slíku verkefni þá séu margir tilnefndir. Því hafi stuðningur íslenska sendiráðsins í Kína og heimsókn forseta Íslands til Kína árið 2005 skipt miklu máli.

"Það vakti mikla athygli í Kína og opnaði dyr." Hann segir að verkefnið hafi hafist með heimsókn hr. Ólafs Ragnar Grímssonar til Qingdao og því sé nú að ljúka með farsælum hætti.