Samstæðureikningur Reykjanesbæjar skilaði tæplega 2,5 milljarða króna hagnaði í fyrra fyrir fjármagnsliði. Að teknu tilliti til þeirra er niðurstaðan neikvæð um tæplega 654 milljónir króna. Eiginfjárhlutfall samantekins reiknings er 16,41%, samkvæmt nýbirtum ársreikningi sveitarfélagsins.

Taprekstur var á Reykjaneshöfn um 558 milljónir. „Þar er um að ræða mikinn fjármagnskostnað vegna framkvæmda. Enn hefur ekki fengist stuðningur ríkisins við framkvæmdir í Helguvík sem ætti að nema um 1,2 milljörðum króna, þrátt fyrir ítrekaðar óskir þar um og skýr fordæmi um stuðning ríkisins til annarra stórskipahafna. Vonast er til að það breytist á næsta ári. Þá er taprekstur á félagslegum íbúðum bæjarins (Fasteignir Reykjanesbæjar) um 173 milljónir króna.“

Í tilkynningu segir að rekstur Reykjanesbæjar hafi gengið vel á árinu 2011. Bæjarsjóður skilaði jákvæðri rekstrarniðurstöðu upp á 33,3 milljónir króna, sem er um 0,38% af tekjum.

Skuldahlutfall bæjarins er nú 207% en var 275% árið 2008. Jafnframt hefur skuldahlutfall samstæðunnar lækkað úr 310% í 230%.