Reiknað tap í ársreikningi Reykjanesbæjar 2008 nemur rúmum 8 milljörðum króna en þar af eru 5 milljarðar vegna gengistaps og neikvæðra fjármagnsliða.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjanesbæ en neikvæð staða byggir á fjórum þáttum:

Skráðu tapi vegna eignarhluta í Hitaveitu Suðurnesja, framkvæmda í Helguvík, fjármagnskostnaði bæjarsjóðs og að lokum auknum útgjöldum til verklegra framkvæmda í lok árs og aukinni fjárhagsaðstoð og húsaleigubótum til heimila.

Fram kemur að stærsti einstaki áhrifavaldur á neikvæða stöðu, um rúmlega 4 milljarða króna er Hitaveita Suðurnesja, en á bæinn er skráð 35% af 11,7 milljarða króna tapi Hitaveitu Suðurnesja 2008.

Þá er annar stærsti skráður liður í rekstrartapi sem tengist fjármagnsliðum hjá bæjarsjóði Reykjanesbæjar, á sama hátt og hjá Hitaveitunni. Fjármagnsliðir hjá bæjarsjóði Reykjanesbæjar eru 2,4 milljörðum króna hærri en áætlað hafði verið í upphafi árs 2008. Reiknað tap bæjarsjóðs nemur 3 milljörðum og 45 milljónum króna.

Auk neikvæðra fjármagnsliða eru rekstrartekjur bæjarsjóðs 100 milljónum króna undir áætlun og verulega var aukið við framkvæmdaverkefni, félagslega þætti og styrki í lok árs. s.s. vegna stórframkvæmda í vegagerð við Hringbraut og Suðurgötu. Þá voru húsaleigubætur umtalsvert hærri en ætlað var í lok árs.

Í tilkynningunni kemur fram að þriðji stærsti liður í neikvæðri afkomu tengist háum neikvæðum fjármagnsliðum hjá Reykjaneshöfn og rekstrarfélagi um félagslegar íbúðir í Reykjanesbæ. Fjármagnsgjöld nema tæpum 1 milljarði króna og heildartap er tæpar 800 milljónir króna.

„Þrátt fyrir þessa niðurstöðu í ársreikningi 2008 telja forsvarsmenn Reykjanesbæjar ástæðu til bjartsýni því stærsti hluti umrædds kostnaðar snýr að atvinnuuppbyggingu og forsendum hennar,“ segir í tilkynningunni.

„Þar ber hæst uppbyggingu orkumannvirkja og fjölda atvinnuverkefna s.s. álver, kísilver, gagnaver, ferðaþjónustu, mennta- og fræðaþorp, heilsuþjónustu og atvinnusköpun í tónlist og hugverkum.“