Dagur B. Eggertsson borgarstjóri Reykjavíkur og Andriy Sadovyy borgarstjóri Lviv undirrituðu samkomulag um samvinnu borganna í Lviv í gær. Borgarstjórinn er staddur í Úkraínu þessa dagana þar sem hann lagði meðal annars blóm á gröf hermanns frá Lviv sem lést í átökum á dögunum.

Auk systraborgasamkomulagsins var einnig undirritað rammasamkomulag milli Össurar og endurhæfingarsjúkrahússins Unbroken sem rekið er af Lviv borg.

„Við vonumst til að auka samstarf borganna á næstu árum og áratugum. Innrás Rússa og yfirstandandi stríð yfirskyggir þó vitanlega allt í Úkraínu um þessar mundir. Því skipti mig mestu máli að koma á tengingu milli Lviv og stoðtækjafyrirtækisins Össurar. Það var meginmarkmiðið með þessari ferð,“ segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.

Sveinn Sölvason og Oleh Samchuk skrifa undir rammasamkomulag milli Össurar og Unbroken.
© Reykjavíkurborg ([email protected])

Í tilkynningu frá Reykjavíkurborg segir að samkomulagið hafi verið í undirbúningi um nokkurt skeið en í september 2022 samþykkti borgarstjórn einróma að slíta vinaborgarsamkomulagi við Moskvu. Samkomulagið tekur sérstaklega tillit til lýðræðis, frelsis, réttarríkis og mannréttinda.

Sadovyy sagði við undirritunina frá heimsókn sinni til Reykjavíkur árið 2019 þegar hann fundaði með Degi B. Eggertssyni fyrst en þeir munu hafa átt í reglulegum samskiptum síðan þá.

Dagur B. Eggertsson ræðir við Sergei, úkraínskan hermann sem særðist í átökum við Rússa.
© Reykjavíkurborg ([email protected])

Á fundi þeirra beggja í Vilníus fyrr á þessu ári greindi Sadovyy fyrst frá verkefni um að byggja upp sjúkrahús og alhliða þjónustu fyrir fólk sem hefur misst útlimi vegna stríðsins í landinu. Um 20 þúsund Úkraínubúar hafa misst útlimi í stríðinu, mörg þeirra börn.

Borgarstjóri, Þórdís Lóa Þórhallsdóttir forseti borgarstjórnar og Sveinn Sölvason, forstjóri Össurar heimsóttu endurhæfingarsjúkrahúsið Unbroken, kynntu sér starfsemina og ræddu einnig við sjúklinga.

Borgarstjórar Lviv og Reykjavíkur og forseti borgarstjórnar lögðu blóm á leiði fallins hermanns í Lviv.
© Reykjavíkurborg ([email protected])

„Össur hefur verið í alls konar samstarfi í Úkraínu frá því að Rússar réðust inn í Úkraínu fyrir rúmu ári, bæði við samtök á vegum hins opinbera sem og einkasamtök sem hafa verið að vinna í lausnum við að byggja upp stoðtækjaiðnað og þekkingu hérna í Úkraínu,“ segir Sveinn.

Auk þess að heimsækja sjúkrahúsið, tóku Dagur B. og Þórdís Lóa þátt í athöfn og lögðu blóm á gröf ungs hermanns frá Lviv sem lést í átökum 15. maí. Þau funduðu einnig með helstu stjórnendum Lviv, skoðuðu borgina með yfirarkitekt borgarinnar og hittu listakonuna Katerynu Kosyanenko á sýningu hennar sem ber yfirskriftina Victory í listasafni Lviv.