Menntaráð Reykjavíkur vill að lögð verði aukin áhersla á fjármálafræðslu í grunnskólum borgarinnar. Ráðið ákvað á fundi sínum 12. nóvember að fela fræðslustjóra að hvetja skólastjórnendur til að leggja aukna áherslu á fjármálafræðslu í því augnamiði að auka fjármálalæsi.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Leikskóla- og menntasviði Reykjavíkurborgar en ráðið fól jafnframt fræðslustjóra að kanna hjá skólastjórum hvort eða hvernig skólarnir sinna fjármálafræðslu meðal nemenda.

Tillagan um fjármálafræðslu kom fram í Reykjavíkurráði ungmenna í vor. Flutningsmaður hennar, Jón Áskell Þorbjarnarson, kom á fund menntaráðs á fimmtudag og mælti fyrir henni.

Í tillögunni segir m.a.: „Mikilvægt er fyrir ungt fólk nú til dags að þekkja grunnhugtök fjármálaheimsins. Við þurfum að vita hvað skattkort er, hvernig yfirdráttur virkar og hvað það er að skrifa undir samning. Því viljum við leggja mikla áherslu á fjármálafræðslu inn í skólanum, jafnvel í lífsleikni eða í stærðfræðitíma.“