Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra hefur lagt fram frumvarp um landslénið .is og önnur íslensk höfuðlén. Er það þriðja þingið í röð sem frumvarp þessa efnis er lagt fram. Nokkrar breytingar hafa verið gerðar frá því að það var síðast lagt fram. Til að mynda er starfsleyfi skráningarstofu nú ótímabundið og sérstakt rekstrargjald hefur verið lækkað.

Viðskiptablaðið fjallaði um fyrirhugaðar breytingar á landsléninu .is í febrúar síðastliðnum og greindi meðal annars frá óánægju forsvarsmanna Internets á Íslandi (ISNIC). Félagið hefur haldið um skráningu .is léna frá upphafi en það var eitt sinn í ríkiseigu. Stærsti eigandi félagsins í dag er Jens Pétur Jensen, framkvæmdastjóri þess, sem á 30% hlut. Aðrir stórir eigendur eru Íslandspóstur hf (19%), Magnús Soffaníasson (17%) og Bárður Hreinn Tryggvason (16%). Samtals eru hluthafar 24 talsins.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.