Deilur innan skólans um fyrirkomulag kennslu eða þá einstaklinga sem fengnir eru til að sinna tilfallandi kennslu geta torveldað faglegt kennslustarf og skaðað hagsmuni nemenda.

Þetta segir í tilkynningu frá Háskóla Íslands vegna þeirrar ákvörðunar að hætta við að fá Jón Baldvin Hannibalsson til að halda gestafyrirlestra í vetur. Sú ákvörðun að fá hann í starfið vakti upp töluverða umræðu þegar Hildur Lilliendahl bloggari og Helga Þórey Jónsdóttir gagnrýndu hana. Ástæðan er sú að Jón Baldvin var fyrir fáeinum misserum ásakaður um ósæmilega hegðun gagnvart aðstandanda sínum.

Nú segir félagsvísindasvið HÍ að sú ákvörðun að Jón Baldvin Hannibalsson muni ekki halda gestafyrirlestra við háskólann næsta vetur sé fyrst og fremst tekin til að gera skólanum kleift að sinna hlutverki sínu og tryggja nauðsynlegan frið um starfsemina. „Skólinn leggur að öðru leyti ekki mat á þær deilur sem uppi hafa verið af þessu tilefni,“ segir í yfirlýsingu frá skólanum.