Nokkrir hluthafar karlafatakeðjunnar Moss Bros eru ósáttir við óformlegt tilboð Baugs í keðjuna og íhuga að auka hlut sinn eða boða til hluthafafundar til að skipta út stjórnendum fyrirtæksins. Ástæðan er óánægja með að stjórnin skuli hafa neitað að hafna 40 milljóna punda tilboði Baugs í félagið, að því er segir í The Times.

Meðal þeirra sem vilja hafna tilboði Baugs er Michael Gee, fyrrum stjórnarmaður í Moss Bros og meðlimur í einni af fjölskyldunum sem stofnuðu verslunarkeðjuna. Hann er í The Sunday Times sagður leita fjármagns til að kaupa að minnsta kosti 20% af þeim 29% sem er í eigu félags Baugs. Hann mun ætla sér að bjóða um 50 pens á hlut, en óformlegt tilboð Baugs hljóðar upp 42 pens.

Gee fjölskyldan á fyrir 8% hlut í Moss Bros og tækist Michael Gee að bæta 20% við væri fjölskyldan komin nærri 29,9% mörkum yfirtökuskyldunnar.

Michael Gee segir við The Sunday Times að ef að hlutabréfakaupin gangi ekki eftir hyggist hann láta boða til hluthafafundar til að skipta um stjórnendur í félaginu, þar með talið framkvæmdastjórann. Gee segir að tilboð Baugs vanmeti mjög verðmæti Moss Bros og að með betra stjórnendateymi megi ná mun meiru út úr rekstrinum.