Þrír ráðherrar boða átak til að lækka byggingarkostnað og auka framboð íbúða.Öllum hagsmunaaðilum á húsnæðismarkaði verður boðið til fundar í þeim tilgangi að ná þessum markmiðum. Fundurinn verður líklega haldinn 21. október.

„Endurskoðun á byggingarreglugerð er þar á meðal, sem og skipulagslög," segir Eygló Harðardóttir, húsnæðismálaráðherra. „Þetta tvennt er á könnu umhverfis- og auðlindaráðherra, sem er þegar búinn að skipa starfshóp sem á að skila af sér í nóvember."

Samtök iðnaðarins og verktakar hafa einmitt gagnrýnt byggingarreglugerðina og sagt hana of stranga. Vísa þeir þar sérstaklega til ákvæða um algilda hönnun sem kveður meðal annars á um stærðir rýma og snúningsradíusa fyrir hjólastóla.

Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra segist mjög jákvæð fyrir því að allt verði reynt til að lækka byggingarkostnað.

„Það er búið að laga reglugerðina mikið en við erum samt að skoða hvort við getum gert meira," segir Sigrún. „Við viljum byggja ódýrt en verðum líka að vanda til verka."

Spurð hvort slakað verði eitthvað á kröfum um algilda hönnun svarar Sigrún: „Ég er mjög hlynnt því að passað sé vel upp á þarfir fatlaðra. Við höfum velt því fyrir okkur hvort hægt sé að hnika þessu eitthvað. Ef við tökum sem dæmi fimm hæða fjölbýli þá væri kannski hægt að byggja fyrstu hæðina eða fyrstu tvær hæðirnar í samræmi við algilda hönnun en efri hæðirnar öðruvísi. Það er hægt að fara ýmsar leiðir í þessu."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .