,,Auðvitað eru aukin álög á bíla og bensín slæm en þau koma svo sem ekki á óvart enda gífurlega erfitt framundan í rekstri ríkisins," sagði Egill Jóhannsson forstjóri Brimborgar um þá ákvörðun ríkisstjórnarinnar að hækka álög á bifreiðaeigendur.

,,Þú spyrð hvort þetta sé sanngjörn leið? Já, hún væri það ef ríkisstjórnin myndi leggja sig jafn mikið fram um að skera niður gæluverkefni sín en um það sjást engin merki. Um leið og auknar byrðar eru settar á almenning og fyrirtæki þá verður það um leið krafa að stjórnkerfið þ.e. stjórnmála- og embættismenn láti af sérhlífninni og skeri niður hjá sér. Fá alvöru merki eru um það," sagði Egill.

Hann benti á að í fjárlögum væri gert ráð fyrir tæpum 200 milljónum króna árið 2009 til að undirbúa þátttöku í heimsýningunni í Kína árið 2010. Búast megi við meiri kostnaði árið 2010. ,,Afhverju er þessu rugli ekki hent út af borðinu strax. Við höfum engin efni á þessu ef við erum á sama tíma að leggja auknar álögur á fólk hér í þessu landi sem rétt skrimtir nú þegar."