Efasemdir um getu íslenska ríkisins og áhugi erlendra kröfuhafa varð til þess að meirihluti Arion banka og Íslandsbanka voru seldir kröfuhöfunum. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag en þar segir að ekki hafi legið ljóst fyrir þegar ákvörðun var tekin um sölu bankanna hvort ríkið hefði fjárhagslegt bolmagn til þess að styðja við bankana á þann hátt sem eiganda ber að gera.

Fram kemur í blaðinu að Fjármálaeftirlitið hafi undir forystu Jónasar Fr. Jónssonar lagst gegn áformunum um sölu bankanna til erlendra kröfuhafa og Gunnar Andersen, núverandi forstjóri FME, segir það hafa legið ljóst fyrir að lögum samkvæmt máttu þrotabú föllnu bankanna ekki eiga þá nýju. Því hafi sérstök eignaumsýslufélög, Landsskil, Kaupskil og ISB Holding, verið stofnuð til þess að halda utan um eignina.

Að sögn Gunnars sparaði ríkið sér talsverðar fjárhæðir með því að láta gömlu bankana taka yfir þá nýju en eignaumsýslufélögin hafi þurft að eiga digra varasjóði til þess að geta stutt við bankana.