Við blasir að verulega skortir á að lífeyrissjóðir opinberra starfsmanna fái ráðið við skuldbindingar sínar án sérstakra framlaga úr ríkissjóði. Árlegt viðbótarframlag þyrfti að nema á þriðja tug milljarða frá árinu 2021, hafi ekki verið gripið til ráðstafana í tíma. Þetta kemur fram í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnari sem gefin var út við undirskrift kjarasamninga.

Pétur H. Blöndal, þingmaður sjálfstæðisflokksins, spurði fjármálaráðherrann, Steingrím J. Sigfússon, í fyrirspurnartíma á Alþingi eftir hádegi í dag hvernig ríkisstjórnin hyggðist bregðast við í tilfellum opinberu lífeyrissjóðanna. Sagði hann A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins (LSR) rekinn með 13% halla (skuldbindingar umfram eignir) en hlutfallið mætti ekki vera meira en 10%.

Opinberir starfsmenn með tryggð réttindi

Pétur spurði hvernig ætti að mæta þessu því opinberum starfsmönnum væru tryggður ákveðinn lágmarks lífeyrir óháð árangri í ávöxtun eigna. Nemur það 3,5% raunávöxtun á meðan starsfmenn almennra lífeyrissjóða þurfa að skerða sinn lífeyri náist ekki lágmarksávöxtun.

Steingrímur J. Sigfússon sagði að lífeyrissjóðirnir hefðu fengið heimild til að vera reknir með 15% halla, sem væri tímabundin. Pétur sagði að sú heimild hefði náð til ársins 2010 og sá tími væri nú liðinn.  Nú skuldaði LSR 47 milljörðum meira en hann ætti.

Skuldbinding vegna B-deildar 340 milljarðar

Pétur ræddi líka B-deild LSR sem hann sagði að vantaði 350 milljarða króna til að geta staðið við sínar skuldbindingar. Steingrímur sagði töluna vera 340 milljarða. Hins vegar væri enginn bráðavandi á ferð fyrr en árið 2020. Með reglulegum inngreiðslum þegar aðstæður ríkisins leyfa ætti að vera hægt að leysa þennan vanda.

Skaut svo Steingrímur á Sjálfstæðisflokkinn sem hefði átt að reka ríkissjóð með meiri afgangi á „svokölluðum" uppgangstíma til að greiða inn í B-deild LSR. Byrjað hefði verið á því upp úr aldamótun en svo hefði sú áætlun frestast.