Ríkissjóður, Kauphöllin og Fjármálaeftirlitið þurfa ekki að endurgreiða manni hlutabréf sem hann keypti eftir að tilkynnt var að ríkið ætlaði að taka yfir 75% hlut í Glitni. Nokkrum dögum síðar féll bankinn og tók skilanefnd yfir lyklavöldin í honum. Gengi hlutabréfa bankans varð einskis virði við yfirtöku.

Maðurinn vísaði máli sínu til stuðnings að ráðamenn hefðu í september 2008 haldið því fram að rekstur bankans yrði tryggður. Hann og fleiri hefðu því keypt hlutabréf bankans. Hann taldi hins vegar að eftir að Glitnir féll hefði íslenska ríkið bakað sér bótaskyldu með því að standa ekki við yfirlýsingu sína um að leggja Glitni nýtt hlutafé upp á 600 milljónir evra. Þá taldi hann Fjármálaeftirlitið og Kauphöllina bakað sér bótaskyldu með því að bregðast eftirlitsskyldu sinni.

Tók stórfellda áhættu

Í dómi Hæstaréttar er meðal annars vísað til þess að í tilkynningum um samkomulag Glitnis og ríkisstjórnarinnar hefði komið fram að hluthafafundur í Glitni þyrfti að samþykkja ráðstöfunina. Ekki hefði verið einsýnt hvernig niðurstaðan yrði um þetta á hluthafafundi. Þá hafi viðskipti með fjármálagerninga Glitnis verið settir á athugunarlista af FME. Einnig hefði ríkið þurft að afla sérstakrar lagaheimildar fyrir ráðstöfuninni.

Var það mat Hæstaréttar að maðurinn hefði ekki mátt leggja traust á að ríkið væri í raun orðinn eða með vissu að verða eigandi meiri hluta hlutafjár í Glitni og af þeim sökum væri áhætta af kaupunum takmörkuð. Þvert á móti hefði maðurinn tekið augljósa og stórfellda áhættu með kaupunum sem ríkið, Fjármálaeftirlitið eða Kauphöllin gætu enga ábyrgð borið á.

Dómur Hæstaréttar