Ríkisstjórnin mun veita allt að 200 milljónum króna í markaðsverkefnið „Ísland - allt árið" á næsta ári og árið 2016. Þetta er töluvert minna en veitt var í verkefnið á árunum 2011 til 2013 þegar ríkisstjórnin veitti 300 milljónum króna í verkefnið á ári.

Þó verkefni sé kalla „Ísland - allt árið" fer markaðssetningin fram undir formerkjum „Inspired by Iceland". Íslandsstofa heldur utan um verkefnið en samningurinn við ríkið rennur út um áramótin. Til þess að verkefnið geti haldið áfram hefur nú verið auglýst eftir samstarfsaðilum. Samkvæmt upplýsingum frá atvinnuvegaráðuneytinu er það meðal annars gert vegna reglna Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) um ríkissaðstoð.

Samstarfið virkar þannig að ríkið leggur 200 milljónir að því gefnu að fyrirtæki, félagasamtök, sveitarfélög eða aðrir leggi fram sömu fjárhæð á móti. Þetta þýðir að ef aðeins fást 150 milljónir frá samstarfsaðilum leggur ríkið 150 á móti. Lágmarksframlag þátttakenda til samningsins eru 20 milljónir króna.

„Framlögum í verkefninu skal varið með almennum hætti og kynningarefni á vegum þess er í þágu ferðaþjónustunnar í heild," segir í tilkynningu frá ráðuneytinu. „Helstu markmið verkefnisins eru að jafna árstíðasveiflu í ferðaþjónustu, auka meðalneyslu ferðamanna og bæta viðhorf og vitund gagnvart Íslandi sem heilsársáfangastað."