Íbúðalánasjóður.
Íbúðalánasjóður.
© Haraldur Jónasson (VB MYND/HARI)
Per Andreas Bjørgan, skrifstofustjóri hjá samkeppnis- og ríkistaðstoðarsviði ESA, segir niðurstöðu ESA, um að uppkaup Íbúðalánasjóðs á íbúðalánasöfnum fjármálafyrirtækja fæli í sér ólögmæta ríkisaðstoð, vera endanlega. Eftirlitsstofnunin tilkynnti um ákvörðun sína í gær. Greint er frá því í Viðskiptablaðinu í dag að alls hefur ÍLS keypt lánasöfn af fjórum sparisjóðum fyrir tæpa 29 milljarða króna .

„Niðurstaða okkar er sú að kerfið sjálft er ekki í samræmi við EES-samninginn. Við höfum hins vegar ekki rannsakað hverja lánatilfærslu fyrir sig sem átti sér stað innan kerfisins. Það getur vel verið að þær samrýmist þeim leiðbeiningum sem við setjum fyrir þá ríkisaðstoð sem er samrýmanleg reglum um ríkistaðstoð.“ Íslenska ríkið verður því að rökstyðja hverja tilfærslu lánasafnanna og sýna fram á að ekki hafi verið greitt hærra en markaðsvirði fyrir hana. Bjørgan segir íslenska ríkið hafa tvo mánuði til þess að svara ESA hversu háa upphæð það þarf að endurheimta frá þeim sem þáðu ríkisaðstoðina og sýna fram á áætlun sem það ætlar að nota við þá endurheimtu. Síðan hafi það tvo mánuði til viðbótar til að koma þeirri áætlun í verk.