Afar ólíklegt er að forsendur fjárlaga fyrir árið 2013 standist og öllum ætti að vera ljóst að ríkissjóður er að öðru óbreyttu ekki aflögufær til þess að bæta kjör landsmanna, að mati Hagfræðideildar Landsbankans. Í nýrri hagsjá deildarinnar segir að ríkissjóður sé enn í þeirri stöðu að u.þ.b. 15% tekna er varið í vaxtagreiðslur.

Það sé frekar líklegra en hitt að skuldir ríkisins fari vaxandi á næstu árum, en að úr þeim dragi. „Allt bendir því til þess að nauðsynlegt sé að halda áframhaldandi aðhaldi í fjármálum til streitu enn um hríð. Loforðum um kjarabætur úr ríkissjóði verða því að fylgja betri skýringar á því hvernig eigi að afla fjár til að fjármagna þau,“ segir á vef Hagfræðideildarinnar.

Þar segir einnig að ótrúlega lítil umræða hafi verið um stöðu ríkisfjármála í kosningabaráttunni. Forsendur fjárlaga hafi byggt á bjartsýni, en þessar forsendur hafi nú versnað. Nýjar tölur bendi til minni aukningar einkaneyslu og þá er gert ráð fyrir því að fjármunamyndun minnki um 2,3% í stað þess að aukast um 8,4% eins og reiknað var með áður. Útgjöld ríkisins verða meiri en gert var ráð fyrir í fjárlögum og spár um tekjuauka í hagkerfinu hafa ekki gengið eftir.

„Á sama tíma og þessi skilaboð blasa við keppast stjórnmálamenn við að lofa lækkun skatta, endurgreiðslu skulda, niðurgreiðslu lána og ýmsum öðrum gæðum kjósendum til handa. Ríkisbúskapnum hefur verið stýrt í rétta átt á síðustu misserum, auðvitað með auknum álögum á þegna landsins og skertri þjónustu. Sú staða sem blasir við fjárahagsstöðu ríkisins segir okkur að því tímabili sé langt frá því lokið. Ríkissjóður er enn í þeirri stöðu að u.þ.b. 15% tekna er varið í vaxtagreiðslur. Sé litið til þeirrar framtíðar sem hér hefur verið teiknuð upp er það frekar líklegra en hitt að skuldir ríkisins fari vaxandi á næstu árum, en að úr þeim dragi. Það hlýtur því að teljast mikið ábyrgðarleysi að telja þegnum landsins trú um mikla getu ríkissjóðs til þess að bæta kjör fólks,“ segir í hagsjánni.