Samkvæmt greiðsluuppgjöri ríkissjóðs jókst handbært fé frá rekstri um 26,8 milljarða króna innan ársins, sem er 10,9 milljarða króna lakari útkoma heldur en á sama tíma í fyrra.

Tekjur ársins hækka um 11 milljarða króna en gjöldin um 34 milljarða króna milli ára. Útkoman er engu að síður 15,4 milljarða króna hagstæðari heldur en gert var ráð fyrir.

Þetta kemur fram í vefriti fjármálaráðuneytisins í dag.

Tekjur hækka um 7 milljarða króna umfram áætlun og gjöldin eru um 9 milljarðar króna innan áætlunar. Hreinn lánsfjárjöfnuður er jákvæður um 35,5 milljarða króna en hann var neikvæður um 22,4 milljarða króna á sama tíma í fyrra.

„Skýringin á þessum viðsnúningi er sá að í fyrra keypti ríkissjóður hlut tveggja sveitarfélaga í Landsvirkjun fyrir 30 milljarða, auk þess sem veitt var 44 milljarða króna til styrkingar á eiginfjárstöðu Seðlabanka Íslands,“ segir í vefritinu.

Þá kemur fram að lántökur jukust um 60 milljarða króna milli ára og eykst handbært fé um hátt í 100 milljarða króna það sem af er árinu.

Innheimtar tekjur aukast um 11 milljarða milli ára

Innheimtar tekjur ríkissjóðs á fyrstu sjö mánuðum ársins námu rúmlega 264 milljarða króna sem er aukning um rúma 11 milljarða frá sama tíma árið 2007 eða um 4,4% að nafnvirði.

Skatttekjur og tryggingagjöld námu tæplega 241 milljarð króna sem samsvarar 5,5% aukningu að nafnvirði á milli ára. Á sama tíma hefur almennt verðlag hækkað um 8,6% (VNV án húsnæðis) og skatttekjur og tryggingagjöld hafa því dregist saman um 2,8% að raunvirði.

Aðrar rekstrartekjur námu um 21 milljarði króna og jukust um 20% frá sama tímabili í fyrra en þær samanstanda einkum af vaxtatekjum og sölutekjum af vöru og þjónustu.

Þá nam eignasala ríkissjóðs rúmlega 2 milljörðum króna á fyrstu sjö mánuðum ársins.

Skattar á tekjur og hagnað tæplega 100 milljarðar

Skattar á tekjur og hagnað námu um 95 milljörðum króna sem er aukning um 9,9% frá sama tíma árið áður.

Þar af jókst tekjuskattur einstaklinga um 7,0% að nafnvirði á milli ára, tekjuskattur lögaðila um 5,6% og skattur af fjármagnstekjum um 19,3%.

Innheimta eignarskatta nam 5 milljörðum króna er samdráttur upp á 20,6% á milli ára.

Stimpilgjöld, sem eru um 80% eignarskattanna, drógust saman um rúman 1 milljarð á tímabilinu eða um 23,2% en þess má geta að ný lög um afnám stimpilgjalda af lánum vegna fyrstu íbúðakaupa tóku gildi 1. júlí sl.