„Við höfum notað afkomubatann til að loka fjárlagagatinu og hætta skiuldasöfnuninni. Það er ástæða til að skoða að herða enn frekar á fjármálareglunum sem er að finna í frumvarpi til laga um opinber fjármál, þannig að við setjum okkur enn metnaðarfyllri markmið um skuldahlutföll hins opinbera í framtíðinni en þar er að finna,“ segir Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, í samtali við Morgunblaðið .

Tekjur ríkisins á síðasta ári voru þær þriðju mestu frá 1998 og námu 665 milljörðum króna. Bjarni segir ríkisstjórnina vilja nota sér tekjuaukann til þess að greiða niður skuldir og byggja upp innviði. Samkvæmt frumvarpi því sem Bjarni nefnir eiga heildarskuldir, að frátöldum lífeyrisskuldbindingum og viðskiptaskuldum en að viðbættum sjóðum og bankainnstæðum, að vera lægri en sem nemur 45% af vergri landsframleiðslu.

Bjarni segir koma til greina að lækka þetta hlutfall enn frekar þar sem horfur séu til þess að því verði náð á næstu þremur til fjórum árum, eða jafnvel árið 2018. Í dag eru skuldir ríkisins 1.509 milljarðar króna eða 75,5% af vergri landsframleiðslu.