*

laugardagur, 31. júlí 2021
Innlent 9. nóvember 2011 07:36

Ríkisstjórnarflokkarnir enn undir 40%

Stuðningur við ríkisstjórnina stendur í stað. Fylgi stærstu flokkanna hreyfist lítið.

Ritstjórn
Axel Jón Fjeldsted

Nær engar breytingar mælast á fylgi flokkanna milli september og október. Fylgi Samfylkingarinnar minnkar um tæpt prósentustig meðal þeirra sem nefna einhvern flokk en að sama skapi eykst fylgi við aðra flokka en þá sem sæti eiga á Alþingi í dag um tæpt prósentustig.

Þetta kemur fram á vef Capacent sem birtir nýjasta þjóðarpúlsinn.

Þar kemur fram að nær 36% segjast myndu kjósa Sjálfstæðisflokkinn ef kosið yrði til Alþingis í dag. Fylgi Sjálfstæðisflokksins hefur lítið breyst síðan í júlí en það sem af er ári hefur fylgi flokksins rokkað á milli 34-37%.

Samkvæmt könnuninni myndi ríflega 21% kjósa Samfylkinguna. Líkt og með Sjálfstæðisflokkinn hefur fylgi Samfylkingarinnar lítið breyst síðustu mánuði og verði á bilinu 22-23%.

Tæplega 16% þátttakenda myndu kjósa Framsóknarflokkinn ef gengið yrði til kosninga nú, næstum 15% Vinstrihreyfinguna - grænt framboð og 3% Hreyfinguna.

Um 10% segjast myndu kjósa aðra flokka en þá sem eiga sæti á Alþingi í dag. Nær 14% svarenda taka ekki afstöðu eða neita að gefa hana upp og rösklega 15% segjast myndu skila auðu eða ekki kjósa ef kosið yrði til Alþingis í dag.

Stuðningur við ríkisstjórnina mælist nú 36% og hefur sömuleiðis lítið breyst síðan í sumar. Í upphafi árs mældist stuðningur við ríkisstjórnina 41%.