Ríkisstjórnin ákvað í morgun að grípa til samþættra aðgerða til að styðja við byggð í Grímsey.

Aðgerðir ríkisstjórnar verða ferþættar. Mun stuðningurinn felast í því að styrkja stöðu útgerðar, bæta samgöngur við Grímsey, framkvæma hagkvæmniathugun á lækkun húshitunarkostnaðar og með verkefninu „Brothættar byggðir“.

Viðskiptablaðið hefur fjallað áður um tillögur iðnaðar- og viðskiptaráðherra um jöfnun húshitunarkostnaðar.

„Það er áríðandi að bregðast við þeirri erfiðu stöðu sem uppi hefur verði í Grímsey undanfarin ár. Heimamenn óttast að ef ekkert verði að gert leggist útgerð í Grímsey af og jafnvel búseta í framhaldi af því,“ segir Sigmundur Davíð forsætisráðherra.