Bílasala í Bandaríkjunum í júli var sú mesta í 11 mánuði. Ástæðan er sú að neytendur flykktust á sölurnar vegna óvissu um framhaldið á ríkisstyrkjum til bílakaupa. Þetta kemur fram í WSJ.

Ríkisstyrkirnir felast í því að stjórnvöld greiða fólki 3500-4500 dali fyrir gamlar druslur ef það kaupir nýjan bíl. Stjórn Obama reynir nú að fá öldungadeild þingsins til að samþykkja 2 milljarða dala til viðbótar til að halda kerfinu áfram áður en þingið fer í frí í lok vikunnar. Fulltrúadeildin hefur þegar samþykkt fjárframlagið.

Sumir bílaframleiðendur hafa gefið til kynna að þeir muni auka framleiðslu til að fylla á bílasölur sem hafa tæmst eftir margra mánaða samdrátt í framleiðslu. Þó virðist framleiðsluaukningin verða takmörkuð, segir WSJ, því að framleiðendur vilji einnig ná verðinu upp og að þeir vilji sjá að aukin eftirspurn haldist þó að niðurgreiðslurnar hætti.