Rekstrarniðurstaða Ríkisútvarpsins á almanaksárinu 2015 er 80,4 milljóna króna hagnaður fyrir skatta, samanborið við 232,5 milljóna króna tap fyrir skatt á almanaksárinu 2014. Kemur þetta fram í ársreikningi Ríkisútvarpsins.

Ríkisútvarpið hefur breytt reikningsskilatímabili sínu þannig að reikningsár verður framvegis almanaksár, en reikningsárið var áður frá september til ágúst. Það þýðir að afkoma Ríkisútvarpsins samkvæmt nýbirtum ársreikningi miðast við sextán mánuði en ekki tólf og gerir það samanburð milli ára erfiðari.

Á sextán mánaða tímabilinu september 2014 til desember 2015 var 14 milljóna króna hagnaður af rekstri Ríkisútvarpsins fyrir skatta. Á reikningsárinu þar á undan var 339,1 milljóna króna tap á rekstrinum fyrir skatta.

Í áritun endurskoðanda er bent á að félagið uppfyllir ekki ákvæði lánasamninga við lánastofnanir þar sem kveðið er á um að fari eiginfjárhlutfall niður fyrir tiltekin viðmið sé lánastofnunum heimilt að gjaldfella lánin. Stjórnendur félagsins séu að vinna að lausn á framtíðar fjárhagsskipan félagsins.

Í tilkynningu til kauphallarinnar segir að breytingaferli síðasta árs hafi skilað umtalsverðri hagræðingu í rekstri félagsins. Markmiðið hafi verið að hagræða í ytri umgjörð og rekstri en verja dagskrá eins og kostur væri, m.a. hafi stór hluti húsnæðis RÚV verið leigður út.

Rekstrargjöld hafi lækkað að raunvirði milli áranna 2014 og 2015 þrátt fyrir að kostnaður við dreifikerfi hækki en sá kostnaður sé til kominn vegna samnings um stafræna dreifingu frá 2013. Afskriftir rekstrarfjármuna lækki einnig milli sömu tímabila en fjármagnskostnaður sé enn hár vegna mikillar skuldsetningar.

Samið var um sölu á byggingarrétti á lóð Ríkisútvarpsins í október 2015. Þegar hafa verið greiddar 800 m.kr. vegna sölunnar sem Ríkisútvarpið ráðstafaði til niðurgreiðslu skulda. Vegna fyrirvara í kaupsamningi og varúðarsjónarmiða er söluhagnaður ekki færður í ársreikningi ársins 2015.