Í gær héldu Bandaríkjamenn upp á forsetadaginn svokallaða, sem lengi var haldinn hátíðlegur á afmælisdegi George Washington, fyrsta forseta Bandaríkjanna, en er nú haldinn hátíðlegur á þriðja mánudegi í febrúar. Af þessu tilefni tók vefmiðillinn Huffington Post saman tölur um auð allra Bandaríkjaforseta frá Washington til Obama.

Af núverandi og fyrrverandi forsetum er Bill Clinton eini forsetinn sem er á topp tíu listanum. Svo er umdeilt hvernig eigi að flokka John F. Kennedy, því þótt fjölskylda hans hafi verið - og er reyndar enn - afar auðug þá erfði hann sjálfur ekkert eftir föður sinn, heldur naut hann góðs af sjóði sem settur hafði verið upp fyrir fjölskyldumeðlimina.

Listinn er byggður á sambærilegum lista sem unninn var árið 2010 af vefsíðunni 24/7 Wall St. og eru fjárhæðirnar miðaðar við það ár, en Huffington Post uppfærði eignir núlifandi manna. Þá sveifluðust eignir sumra forsetanna mjög mikið, einkum fyrstu forsetanna. Í tilvikum látinna forseta er því miðað við eignirnar eins og þær voru mestar. Frægt er til dæmis að þrátt fyrir að Thomas Jefferson sé hér í öðru sæti yfir auðuga forseta þá var hann stórskuldugur maður þegar hann lést og hafði þá sóað auðnum öllum.

Tíu ríkustu forsetar Bandaríkjanna samkvæmt samantekt Huffington Post og 24/7 Wall St.

  1. George Washington (1. forsetinn) 525 milljónir dala.
  2. Thomas Jefferson (3. forsetinn) 212 milljónir dala.
  3. Theodore Roosevelt (26. forsetinn) 125 milljónir dala.
  4. Andrew Jackson (7. forsetinn) 119 milljónir dala.
  5. James Madison (4. forsetinn) 101 milljónir dala.
  6. Lyndon Baines Johnson (36. forsetinn) 98 milljónir dala.
  7. Herbert Clark Hoover (31. forsetinn) 75 milljónir dala.
  8. Franklin Delano Roosevelt (32. forsetinn) 60 milljónir dala.
  9. William Jefferson Clinton (42. forsetinn) 55 milljónir dala.
  10. John Tyler (10. forsetinn) 51 milljónir dala.

Svo má bæta við að George W. Bush yngri er í ellefta sæti með 35 milljónir dala, George H. W. Bush faðir hans er í fjórtánda sæti með 23 milljónir, Jimmy Carter er í 22. sæti með sjö milljónir dala og Barack Obama er í 23. sæti með sömu fjárhæð.