Hollenski bankinn Rabobank hefur tilkynnt um útgáfu krónubréfs að nafnvirði 30 milljarða króna  en það er til eins árs  og ber 14% vexti. Þessi stóra útgáfa er hin fyrsta frá því seint í nóvember og hefur íslenska krónan styrkst nokkuð það sem af er degi.

Í Morgunkorni Glitnis kemur fram að ganga megi að því sem næst gefnu að um sé að ræða framlengingu á stórum hluta af 45 milljarða útgáfu Rabobank frá því í janúar í fyrra en hún sé á gjalddaga í þessum mánuði.

Greiðsludagur nýju útgáfunnar sé 28. janúar, sami dagur og gjalddagi fyrri útgáfunnar, og sami umsjónaraðili, TD Securities, komi að báðum útgáfunum. Um 65 milljarðar í krónubréfum er á gjalddaga í þessum mánuði og segja sérfræðingar Glitnis að fróðlegt verði að fylgjast með hvort öllum krónubréfum á gjalddaga í janúar auk vaxta verði mætt með nýjum útgáfum.