Íslenska ríkið keypti á síðasta ári vörur og þjónustu af Advania fyrir ríflega 3,4 milljarða króna. Þetta er meðal þess sem kemur fram í gögnum yfir greidda reikninga ráðuneyta og stofnana fyrir vörur og þjónustu úr bókhaldi íslenska ríkisins á vefsíðunni opnirreikningar.is

Þó upphæðin nemi um 22% af tekjum Advania árið 2018 ber að hafa í huga að upphæðirnar í gögnum opinna reikninga eru í flestum tilfellum með virðisaukaskatti. Sé 24% virðisaukaskattur tekinn af allri upphæðinni nemur hún samt sem áður áður tæplega 2,8 milljörðum króna eða um 18% af tekjum Advania á árinu 2018.

Ljóst er að arfleifð Skýrr, sem hét upphaflega Skýrsluvélar ríkisins og Reykjavíkurbæjar og varð hluti af Advania árið 2012, lifir góðu lífi því Advania er stærsti einstaki birgir ráðuneyta og stofnana fyrir utan fyrirtæki í heilbrigðisþjónustu.

Stærsti kaupandi á vörum og þjónustu Advania er Fjársýsla ríkisins sem greiddi fyrirtækinu alls rúmlega 1,1 milljarð króna á síðasta ári. Meira en helmingur upphæðinnar kemur til vegna tölvukerfisins Orra sem er samheiti yfir ýmis kerfi svo sem fjárhags- og mannauðskerfi ríkisins. Á síðasta ári greindi Kjarninn frá því að árið 2018 hefði Fjársýslan greitt Advania 635 milljónir án virðisaukaskatts vegna Orra og um 392 milljónir vegna annarra kerfa.

Á eftir Fjársýslunni sem stærstu kaupendur á vörum og þjónustu Advania kemur svo Ríkisskattstjóri með 497 milljónir og Tollstjórinn með 419 milljónir sem þýðir að hið nýsameinaða embætti sem nú heitir Skatturinn greiddi Adavania um 916 milljónir á síðasta ári. Þar á eftir kemur svo Landspítalinn með 257 milljónir og Þjóðskrá Íslands með 173 milljónir.

Þegar greiddir reikningar til fyrirtækja í tölvu- og hugbúnaðargeiranum eru skoðaðir sést að tvö stærstu fyrirtækin á þeim markaði ráða lögum og lofum yfir stærstu birgja ríkisins hvað varðar upplýsingatækni. Í öðru sæti í þeim geira kemur Origo með rúmlega 2 milljarða króna en sé virðisaukaskattur tekinn af allri upphæðinni nemur hún um 11% af tekjum Origo á síðustu fjórum ársfjórðungum.

Stærstur hluti af keyptum vörum og þjónustu Origo kemur til vegna heilbrigðismála en fyrir tækið rekur meðal annars sjúkraskráningarkerfið Sögu. Stærsti einstaki kaupandi frá Origo fellur undir flokkinn, Heilbrigðismál, ýmis starfsemi, með 492 milljónir en þar á eftir kemur Landspítalinn með 435 milljónir og Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins með 435 milljónir en sex af átta stærstu kaupendum frá Origo eru heilbrigðisstofnanir. Umsvif Origo í upplýsingatækni vegna heimbrigðismála skýrir einnig að hluta af hverju upphæð greiddra reikninga til fyrirtækisins hækkar um tæplega 1,3 milljarða milli ára en Landspítalinn kom m.a. ekki inn í gögn opinna reikninga fyrr en á seinni helmingi árs 2018.

Það skal tekið fram að upplýsingarnar  eru birtar með fyrirvara um áreiðanleika þeirra gagna sem birt eru á vefsíðu opinna reikninga. Þess má geta að við vinnslu úttektarinnar kom í ljós villa í gögnunum þar sem greiðslur til eins fyrirtækis í heilbrigðisþjónustu voru margtaldar sem leiddi til þess að skekkja upp á tæplega 40 milljarða myndaðist í heildarupphæð til þess. Aftur á móti hefur Viðskiptablaðið fengið þau svör að um sérstakt tilvik hafi verið að ræða og þau gögn sem birt eru eigi að vera rétt. Þá má einnig geta þess að gögnin innihalda ekki yfirlit yfir greidda reikninga Alþingis, Forsetaembættisins eða opinberra fyrirtækja.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .