Fasteignaþróunarfélagið Festir ehf. hefur ráðið Róbert Aron Róbertsson sem framkvæmdastjóra en hann er öllum hnútum félagsins vel kunnugur sem stjórnarmaður þess til nokkurra ára. Róbert situr einnig í stjórn Festingar og Samskipa.

Róbert sem er viðskiptafræðimenntaður og hefur áunnið sér réttindi til verðbréfaviðskipta hóf árið 2007 störf fyrir Kjalar hf. Frá 2009 hefur Róbert sinnt fjölbreyttum verkefnum á sviði fjármálaráðgjafar, m.a. fyrir Festir, en reynsla Róberts mun skipta miklu máli fyrir félagið á komandi misserum.

Heimir Sigurðsson, stjórnarformaður Festis ehf. segir Róbert koma inn á góðum tímapunkti í félagið. „Róbert hefur starfað í stjórn félagsins um langt skeið og hefur yfirgripsmikla þekkingu á málefnum þess og getur leitt uppbygginguna næstu misserin,“ segir Róbert.

„Við stöndum á vissum tímamótum í starfsseminni með nokkur stór og viðamikil verkefni sem við hyggjumst byggja framtíð félagsins á. Inn í þá vinnu er reynsla Róberts dýrmæt því ég veit að hann hefur þann drifkraft sem þarf til að mæta verkefnum sem eru framundan í starfseminni.“

Byggja Vogabyggð, Héðinsreit og á Snæfellsnesi

Helstu verkefni Festis ehf. um þessar mundir eru uppbygging í Vogabyggð en þar eru byggingar í eigu Festis ehf., samtals um 7.000 fermetrar sem verða rifnir áður en framkvæmdir hefjast.

Þá tekur Festir þátt í viðamiklu verkefni við Héðinsreit en reiknað er með að framkvæmdir við um 200 íbúðir hefjist þar snemma á næsta ári en þegar hefur verið lagður mikill metnaður í undirbúning og hönnun. Festir á einnig Suðurlandsbraut 18 þar sem áform hafa verið uppi um stækkun.

Þá er Festir með verkefni á Snæfellsnesi sem hefur vakið mikla alþjóðlega athygli en það er Red Mountain Lagoon baðlónið sem yrði ferðaþjónustu á Vesturlandi mikil lyftistöng. Róbert hefur þegar tekið við störfum.