Það sem helst kemur á óvart í yfirlýsingu peningastefnunefndar Seðlabankans í dag, þar sem tilkynnt var um óbreytta vexti, er rökstuðningur nefndarinnar. Í stað þess að leggja til grundvallar áhrif Icesave kosningarinnar á ýmsa óvissuþætti og hvaða áhrif slík óvissa geti haft á efnahagsbatann á næstu misserum, þá fer peningastefnunefndin inn á fyrirfram troðnar slóðir sem birtast í áhyggjum þeirra af aukinni verðbólgu og mögulegra áhrifa Icesave kosninga á gengi krónunnar (þ.e. gengismarkmið gengur framar öðrum þáttum).

Þetta segir í Markaðspunktum greiningardeildar Arion banka í dag.

„Eins og oft áður þá  njóta þessir þættir vafans en ekki enn svartari hagspá Seðlabankans sem gefur til kynna afar veikburða endurreisn hagkerfisins, áframhaldandi framleiðsluslaka ásamt versnandi atvinnuhorfum, þættir sem ótvírætt kalla á lægra aðhaldsstig að okkar mati.

Úr yfirlýsingu peningastefnunefndar:

„Óvissa er um í hvaða átt næstu vaxtabreytingar verða. Peningastefnunefndin er reiðubúin til þess að breyta aðhaldi peningastefnunnar eins og nauðsynlegt er með hliðsjón af því tímabundna markmiði hennar að stuðla að gengisstöðugleika og í því skyni að tryggja að verðbólga verði nálægt markmiði til lengri tíma litið.“

Helstu áhyggjuefni

1. Peningastefnunefndin hefur áhyggjur af lækkun raunvaxta  - þrátt fyrir meiri slaka í hagkerfinu. Ef við horfum framhjá þessum efnahagsslaka (í bili) þá er lækkun raunvaxta bein afleiðing af hækkandi verðbólgu. Eins og Seðlabankinn bendir réttilega á þá stafar hækkandi verðbólga síðustu mánuði og versnandi verðbólguhorfur fyrst og fremst af hækkandi hrávöruverði á erlendum mörkuðum, mæliskekkju hjá Hagstofunni á byggingarkostnaði og veikingu krónunnar. Sama nefnd hefur sömuleiðis bent á að hún horfi í gegnum fingur sér vegna hrávöruverðshækkana. Auknar verðbólguvæntingar stafa því einkum af atriðum sem Seðlabankinn getur lítið slegið á með hærra aðhaldsstigi en ella. Í ljósi slakans í hagkerfinu er ólíklegt að undirliggjandi verðbólguþrýstingur aukist verulega á næstu misserum.

2.     Eins og oft áður þá hefur peningastefnunefnd sömuleiðis áhyggjur af hættu á veikari krónu og nú vegna niðurstöðu Icesave kosninga . Vissulega hefur aukin hætta skapast sem snýr að endurfjármögnun erlendra lána. Slíkt gæti því kallað á aukin gjaldeyriskaup Seðlabankans á markaði sem setur þrýsting á gengi krónunnar. Gengi krónunnar mun því á næstunni ráðast af því hversu mikill gjaldeyri skilar sér til landsins (þ.e. af undirliggjandi viðskiptajöfnuði) og hversu „agressívur“ Seðlabankinn ætlar sér að vera í sínum gjaldeyriskaupum (ef til þess kemur). Ef Seðlabankinn bregst við veikingu krónunnar með vaxtahækkun myndi slík aðgerð ekki vera til þess fallin að styðja við veikan efnahagsbata. Við það myndast hins vegar meiri afgangur á viðskiptum við útlönd (vegna minni innflutnings) sem gæti dregið úr veikingu krónunnar. Þetta gæti hins vegar orðið afar dýrkeypt leið ofan í þann slaka og þá miklu óvissu sem við búum við í dag. Þá má ekki gleyma því að sá aukni ferðamannastraumur sem búist er við nú í sumar ætti frekar að vekja von í brjósti nefndarinnar um að veiking krónunnar gangi til baka - svo lengi sem gengi krónunnar ræðst af undirliggjandi viðskiptajöfnuði (sem er jákvæður).“