Síminn hækkaði mest allra félaga á aðalmarkaði, um 1,67% í 370 milljón króna viðskiptum. Festi hækkaði um 0,87% í 77 milljóna viðskiptum og gengi bréfa Arion hækkaði einnig um 0,82% í 275 milljóna viðskiptum.

Lítil velta var á aðalmarkaði Kauphallarinnar í dag, eða um 3 milljarðar króna. Mest velta var með bréf Kviku, en viðskipti með bréfin námu 650 milljónir króna og hækkaði gengi félagsins um 0,75% í viðskiptum dagsins.

Flugfélagið Icelandair lækkaði mest allra félaga, um 1,53% í óverulegum viðskiptum upp á rúmar 60 milljónir króna. Félagið braut „2 krónu á hlut múrinn“ nú á dögunum en gengi félagsins hefur lækkað lítillega í vikunni. Tryggingafélagið VÍS lækkaði um tæpt prósent í viðskiptum dagsins.

Á First North markaðnum lækkaði gengi Hampiðjunnar um 9% í 112 þúsund króna viðskiptum. Solid Clouds lækkaði um 0,21% í 156 þúsund króna viðskiptum. Flugfélagið Play lækkaði um 0,83% í 6 milljóna viðskiptum.

Úrvalsvísitalan hækkaði um 0,49% og stendur nú í 3.309,44.