Hagfræðingurinn Nouriel Roubini, sem varaði við efnahagskreppunni á árunum fyrir hrun við litlar undirtektir, telur að ef verð á olíutunnu nái 140 dölum muni einhver af hinum þróuðu ríkjum glíma við efnahagslægð að nýju. Við slíka hækkun yrði því efnahagskreppan tvöföld.

Hann segir að efnahagsbati heimsins sé afar brothættur og varaði við stýrivaxtahækkunum hjá Seðlabanka Evrópu. Ef vextir hækka of fljótt gætu það orðið dýrkeypt mistök, sagði Roubini en hann ræddi við blaðamenn í Dubai í dag. Fjallað er um málið á vef Bloomberg.

Olíuverð hefur sveiflast mikið að undanförnu og óvissan verið sérstaklega mikil eftir að átök brutust út í Líbíu. Olíuverð lækkaði töluvert í dag en verð við lok gærdagsins var það hæsta síðan 26. september 2008. Alls nemur hækkunin á árinu 27%.