Á þriðja hundrað tonna af matvælum liggur á hafnarbakka í Sundahöfn á meðan kjaradeila dýralækna hjá Matvælastofnun er óleyst, en til þess að hægt sé að afgreiða vörurnar þurfa dýralæknar að votta þær. Greint er frá þessu í Fréttablaðinu .

„Við erum með matvöru á hafnarbakkanum fyrir um 30 milljónir króna. Sum matvæli í þessari sendingu eru með stuttum tímastimpli og því gætu matvælin farið að skemmast,“ segir Páll Hilmarsson, framkvæmdastjóri markaðssviðs Innness, í samtali við Fréttablaðið. Hann segir verkfallið bitna hart á neytendum og fyrirtækjum.

Jón Gíslason, forstjóri Matvælastofnunar, segist í samtali við Fréttablaðið vona að deilan leysist sem fyrst. „Þetta er mjög slæmt fyrir þriðja aðila sem er að lenda í erfiðri stöðu í sínum viðskiptum. Varðandi innflutning á matvælum má segja að engin heimild hafi fengist fyrir innflutningi,“ segir hann.